Tatarar (1968-72)

Hljómsveitin Tatarar vöktu nokkra athygli á tímum blóma- og hippabarna, sveitin sendi frá sér tvær athyglisverðar smáskífur með fjórum lögum og eitt þeirra lifir enn ágætu lífi.

Sveitin var stofnuð sumarið 1968 af nokkrum strákum á menntaskólaaldri, reyndar höfðu þeir félagar starfað undir ýmsum nöfnum frá árinu 1966 s.s. Tacton, Bláa bandið og Dýrlingarnir en þónokkrar mannabreytingar höfðu þá einkennt samstarfið.

Tatarar birtust fyrst opinberlega um verslunarmannahelgina í Húsafelli um sumarið 1968 og þóttu athyglisverðir þar en lítt áberandi í kjölfarið, meðlimir sveitarinnar voru þá Árni Blandon gítarleikari sem var forsprakki sveitarinnar, Magnús S. Magnússon trommuleikari, Stefán Eggertsson söngvari, Þorsteinn Hauksson orgel- og gítarleikari (síðar tónskáld) og Gunnar Elíasson bassaleikari.

Mannabreytingar einkenndu samstarfið og Gunnar bassaleikari varð fyrstur til að hætta, það var Jón Ólafsson sem tók við af honum og þannig skipuð gerði sveitin útgáfusamning við Svavar Gests og SG-hljómplötur.

Haustið 1969 kom síðan út tveggja laga plata sem kynnt var á all nýstárlegan hátt með blaðaauglýsingum en einnig auglýstu þeir félagar stofnun aðdáendaklúbbs. Með plötunni fylgdi ennfremur átta síðna bæklingur um sveitina en slíkt hafði ekki þekkst hérlendis.

Platan sem var hljóðrituð í Ríkisútvarpinu af Pétri Steingrímssyni hlaut ágætar viðtökur, góða dóma í Tímanum og Morgunblaðinu, en lagið Dimmar rósir eftir Árna gítarleikara (við texta Magnúsar) vakti mikla athygli og hefur reyndar heyrst reglulega síðan í útvarpi, lagið er löngu orðið sígilt og fínn vitnisburður um hvað bítla- og hippasveitir voru á gera á þessum tíma. Hitt lagið á plötunni var Family lagið Processions sem með íslenskum texta Matthíasar Johannessen (ritstjóra Morgunblaðsins) hlaut titilinn Sandkastalar.

Tatarar 1969

Platan vakti athygli á Töturum en þrátt fyrir það hættu Magnús, Árni og Stefán fljótlega eftir útgáfu hennar. Þá var Þorsteinn einn eftir af upprunalega bandinu auk Jóns bassaleikara. Um tíma lék Áskell Másson trommuleikari með sveitinni en Magnús kom aftur inn snemma um vorið 1970, þá hafði Gestur Guðnason gítarleikari frá Siglufirði bæst í hópinn einnig og Jón hafði tekið við söngnum.

Um sumarið bættist Töturum frekari liðsauki þegar söngkonan Janis Carol kom inn, hún staldraði þó ekki lengi í sveitinni og Jóhann G. Jóhannsson (Óðmenn o.fl.) tók við af henni. Janis náði þó að koma fram með sveitinni í sjónvarpsþætti sem sýndur var um haustið.

Um svipað leyti og Janis gekk í sveitina kom út önnur og síðari smáskífa sveitarinnar en tónlistin var þá orðin töluvert þyngri og fékk ekki eins mikla spilun í útvarpi og hin fyrri. Það var Jón bassaleikari sem sá um sönginn í þetta skiptið en lög og textar voru eftir meðlimi sveitarinnar. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Vikunni.

Jóhann hafði verið í hljómsveitinni Óðmönnum sem hafði þá leikið stórt hlutverk í Popleiknum Óla sem sýndur var í Tjarnarbæ, þegar ljóst var að Óðmenn voru að hætta um haustið 1970 voru Tatarar fengnir til að fylla skarð sveitarinnar í Tjarnarbæ og var það megin ástæðan fyrir samstarfi Jóhanns og Tatara. Jóhann hætti svo í sveitinni um það leyti sem sýningum lauk, um áramótin 1970-71.

Tatarar með Janis Carol innanborðs

Og um þessi áramót var sveitin í raun og veru hætt þótt nokkrar tilraunir hafi verið gerðar til að halda henni áfram starfandi. Magnús trommari hætti og Ásgeir Óskarsson lék um tíma með sveitinni sem og líklega fleiri trommuleikarar. Í raun heyrðist ekkert af sveitinni fyrr en í upphafi árs 1972 en þá kom hún fram á sjónarsviðið og hafði að geyma þá Jón og Gest, auk þess sem Ólafur Sigurðsson trommuleikari og Eiður Eiðsson söngvari voru í henni. Þessi síðast útgáfa sveitarinnar lék þó líkast til aldrei opinberlega og um vorið 1972 var hún alveg hætt störfum. Hljómsveitin Rosie spratt síðan upp úr Töturum.

Sveitin væri sjálfsagt flestum gleymd ef ekki hefði komið til lagið Dimmar rósir, sem margoft hefir komið út á safnplötum síðan. Margir hafa spreytt sig á laginu og fjölmargar útgáfur af því hafa komið út með tónlistarfólki eins og Bergsveini Arilíussyni, Bítlavinafélaginu, Friðriki Ómari, Valgerði Guðnadóttur, Katrínu Sif Árnadóttur og Ævari Þór Benediktssyni, þá eru ótalin þau sem flutt hafa lagið í Söngkeppni framhaldsskólanna en þar naut það mikilla vinsælda á upphafsárum keppninnar.

Þess má geta að löngu síðar kom út skáldsaga eftir Ólaf Gunnarsson, sem bar titilinn Dimmar rósir, og vísar til þess tíma sem sveitin var starfandi.

Efni á plötum