Tempest (1995-97)

Tempest 1995

Hljómsveitin Tempest úr Reykjavík var nokkuð áberandi í keppnum hljómsveita í kringum miðjan tíunda áratug síðustu aldar, sveitin keppti tvívegis í Músíktilraunum og einnig í Rokkstokk kepppninni í Keflavík.

Ekki liggur fyrir hvenær Tempest var stofnuð en hún komst fyrst á blað í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1995. Meðlimir sveitarinnar þá voru Davíð Gunnarsson bassaleikari og söngvari, Ásgeir Einarsson gítarleikari, Ari Harðarson gítarleikari og Ragnar Már Róbertsson trommuleikari en sveitin komst ekki í úrslit keppninnar.

Lítið heyrðist til sveitarinnar í kjölfarið en tveim árum síðar birtist hún aftur í Músíktilraunum Tónabæjar og ÍTR, Tempest hafði þá tekið þeim breytingum að Ásgeir gítarleikari hafði tekið við söngnum af Davíð og nýr trommuleikari, Helgi Davíð Ingason hafði tekið við kjuðunum af Ragnari. Sveitin komst ekki áfram í úrslit fremur en í fyrra skiptið en menn voru sammála um að sveitin hefði tekið miklum framförum.

Það sama sumar, 1997 keppti Tempest í hljómsveitakeppninni Rokkstokk í Keflavík, þar vann sveitin ekki til neinna sérstakra viðurkenninga en átti þó í kjölfarið lag á safnplötunni Rokkstokk 97 sem gefin var út af þessu tilefni.

Ekki liggur fyrir hversu lengi Tempest sveitin starfaði eftir Rokkstokk keppnina.