
Tempó
Tempó er klárlega meðal þekktustu unglingahljómsveita sem hérlendis hafa starfað en meðlimir hennar voru afar ungir að árum, það er því óhætt að kalla þá félaga barnastjörnur.
Sveitin var stofnuð í Langholtsskóla haustið 1963, sveitarliðar voru þá tólf og þrettán ára gamlir og léku mestmegnis á skemmtunum innan skólans. Það voru þau Halldór Kristinsson trommuleikari, Fríða Svandís Kristinsdóttir söngkona tvíburasystir Halldórs, Davíð Jóhannesson gítarleikari, Guðni Jónsson gítarleikari og Þorgeir Ástvaldsson orgelleikari sem skipuðu þessa fyrstu útgáfu Tempó veturinn 1963-64 og kom sveitin einnig fram í útvarpsþætti þannig skipuð. Reyndar gekk sveitin undir nafninu P.Ó. kvintett í upphafi en ekki er ljóst fyrir hvað sú skammstöfun stóð, sveitin gæti því jafnvel hafa verið stofnuð ári fyrr.
Haustið 1964 höfðu orðið þær breytingar á Tempó að Fríða var hætt og Halldór hafði fært sig yfir á bassa auk þess að syngja, Þorgeir söng einnig en Ólafur Garðarsson kom inn á trommurnar í stað Halldórs.
Það var svo eftir áramótin 1964-65 sem hjólin fóru að snúast fyrir alvöru, sveitin lék í Breiðfirðingabúð og víðar utan Langholtsskóla þrátt fyrir mjög ungan aldur meðlima hennar en þeir voru þá einungis þrettán ára gamlir, og stóra tækifærið kom þegar breska sveitin Swinging blue jeans kom hingað til lands í febrúar mánuði 1964, þá var sveitin fengin til að hita upp fyrir bresku bítlasveitina og aftur hituðu þeir félagar upp fyrir breska bítlasveit um sumarið þegar Kinks komu hingað til lands. Á miðju sumri urðu þær mannabreytingar að Ólafur trommari hætti í sveitinni og gekk til liðs við Erni, og tók Páll Valgeirsson sæti hans við settið.

Tempó og Kinks
Tempó naut töluvert mikilla vinsælda og fjölmiðlaathygli á þessum tíma og varð m.a. fræg fyrir að leika í þverröndóttum peysum, rauðum og svörtum, og seldust slíkar peysur afar vel í kjölfarið.
Sveitin lék lítið næsta vetur vegna anna þeirra félaga í námi en þeir byrjuðu af krafti aftur um vorið 1966, þá um sumarið lék sveitin aftur með Kinks en veturinn eftir (1966-67) var eins og sá á undan, að meðlimir Tempó voru önnum kafnir við nám sitt og léku þeir því lítið um haustið en eitthvað meira eftir áramótin, þá lék Gunnar Jökull Hákonarson trommuleikari með sveitinni en hann var þá orðinn þekktur trymbill. Hann var einnig með sveitinni um sumarið 1967 þegar sveitin fór á fullt aftur en þá höfðu þeir Tempó-liðar ákveðið að hætta samstarfinu um haustið þar sem þeir vildu einbeita sér alfarið að námi sínu en námið var alltaf númer eitt hjá þeim félögum.

Tempó 1966
Sveitin hætti því um haustið 1967 en hefur í fáein skipti komið aftur saman við hátíðleg tækifæri, s.s. á fimmtíu ára afmæli FÍH vorið 1982. Á þeim tónleikum komu fram fjöldi hljómsveita og voru herlegheitin tekin upp og gefin út á tvöföldu tónleikaplötunni FÍH 50 ára: 1932-1982, á þeirri plötu má heyra Tempó flytja Peter & Gordon lagið True love ways.
Þótt þeir félagar færu hver í sína áttina þarna um haustið áttu þeir flestir eftir að vera viðloðandi tónlist á einn eða annan hátt, Halldór varð þekktur sem einn Þriggja á palli auk þess sem hann á stuttan sólóferil að baki, trommuleikararnir Páll, Ólafur og Gunnar Jökull urðu allir þekktir í sínu fagi með hinum og þessum sveitum, og Þorgeir varð þekktur fjölmiðlamaður, sem einn af Sumargleðinni og sem jólasveinninn Stúfur.