Tríó Jóns Páls Bjarnasonar (1959-2010)

Tríó Jóns Páls árið 2002

Gítarleikarinn Jón Páll Bjarnason starfrækti oft og iðulega djasstríó á meðan hann bjó hér á landi en hann bjó lengi erlendis, í Svíþjóð og Bandaríkjunum.

Fyrst er tríóa getið í hans nafni á árunum í kringum 1960, í því voru auk hans Gunnar Ormslev tenór-saxófónleikari og Sigurbjörn Ingþórsson bassaleikari. Það tríó er líklega það þekktasta í nafni Jóns Páls en upptökur með því frá tónleikum í Austurbæjarbíói frá því um haustið 1959 voru gefnar út á plötunni Jazz í 30 ár, en sú plata var gefin út í minningu Gunnars Ormslev árið 1983 og aukin endurútgáfa 1996 með alls fjórum lögum tríósins.

1961 voru Þórarinn Ólafsson píanóleikari og Árni Egilsson bassaleikari með Jóni Páli og ári síðar lék Tríó Jóns Páls í laginu Lítill fugl en það kom út á tveggja laga plötunni 79 af stöðinni með söngkonunni Ellyju Vilhjálms, hitt lagið var Vegir liggja til allra átta. Tríóið var á þeirri plötu skipað Jóni Páli, Sigurbirni Ingþórssyni bassaleikara og Erni Ármannssyni gítarleikara.

Jón Páll bjó og starfaði sem fyrr segir mikið erlendis, og var hann lítið hér heima sjöunda, áttunda og níunda áratuginn, hann kom þó hingað í styttri heimsóknir og starfrækti þá tríó í nokkur skipti, hann hafði verið á Íslandi 1984, 86, 87 og 88 en fáar heimildir finnast um meðlimi þeirra tríóa, 1988 voru þó Tómas R. Einarsson bassaleikari og Birgir Baldursson trommuleikari með honum.

Um aldamótin var Jón Páll alkominn heim og næstu árin var hann margoft með tríó sem héldu tónleika í tengslum við djasshátíðir sem og einstaka viðburði. Hljóðfæraskipan var iðulega sú sama, píanó, bassi og trommur en meðlimaskipan var með ýmsu móti, meðal bassaleikara voru Árni Scheving, Gunnar Hrafnsson, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson og Þorgrímur Jónsson en trommuleikarar voru s.s. Guðmundur Steingrímsson, Matthías M.D. Hemstock, Alfreð Alfreðsson og Erik Qvick.

Jón Páll starfrækti tríó allt til ársins 2010 að minnsta kosti.

Efni á plötum