Segðu mér

Segðu mér
(Lag / texti: Geirmundur Valtýsson / Hilmir Jóhannesson)

Segðu mér það vindur hvað vin minn dvelur,
verður hann ekki bráðum í faðmi mínum?
Berðu honum kveðju á breiðum vængjum þínum,
biðin er löng hjá þeim sem stundirnar telur.

Segðu mér það vindur, hvað vin minn tefur,
vakir ekki lengur í hjarta hans ástin heita?
Horfa ekki augu hans yfir fjöllin og leita
augna minna hvort að nú gleymt hann hefur.

Til þín hugsa ég hátt yfir fjöllin blá,
flýgur mín þrá um fannhvítar skýjaslóðir.

Segðu mér það vindur, nær minn vinur kemur,
vonirnar mínar daprast af því að bíða,
brjóstið það verður fullt af fölbláum kvíða,
feyktu í buskann því svari sem draumurinn kremur.

Til þín hugsa ég hátt yfir fjöllin blá,
flýgur mín þrá um fannhvítar skýjaslóðir.

[af plötunni Geirmundur Valtýsson – Á fullri ferð]