Siglufjörður

Siglufjörður
(Lag / texti: Bjarki Árnason)

Hér við íshaf byggð var borin
bærinn okkar, Siglufjörður,
inn í fjöllin skarpt var skorinn
skaparans af höndum gjörður.
Til að veita skjól frá skaða
skipunum á norðurslóðum,
sem að báru guma glaða
gull er fundu í hafsins sjóðum.

Hér er skjól og hér er ylur
hart þó ís að ströndum renni,
þó að hamlist hörkubylur
hlýju samt hið innra kenni.
Fólkið sem að byggir bæinn
bestu lofgjörð honum syngur
um að bæti öllum haginn
eitt, að vera Siglfirðingur.

[af plötunni Karlakórinn Vísir – Okkar glaða söngvamál]