Bifróvision [tónlistarviðburður] (1960-)

Sigurvegarar Bifróvision 1987

Söngvarakeppnin Bifróvision (Bifróvisjón) á sér langa hefð á Bifröst í Borgarfirði, fyrst við Samvinnuskólann og síðar Háskólann á staðnum.

Keppnin mun fyrst hafa verið haldin árið 1960 (ein heimild segir reyndar 1962) en hún hlaut ekki nafn sitt fyrr en um 1980, þegar farið var að kalla hana Bifróvision en um það leyti voru Íslendingar að meðtaka Eurovision keppnina fyrir alvöru enda en nafnið bein skírskotun til þeirrar keppni.

Fyrirkomulag keppninar hefur verið með því sniði að keppendur finna sér umboðsmann sem síðan sér um að auglýsa þá undir dulnefni þannig að áhorfendur vita ekki hverjir koma til með að syngja í keppninni fyrr en stundin rennur upp. Verðlaun eru síðan veitt fyrir bestu söngvarana og besta umboðsmanninn.

Bifróvision, sem iðulega hefur verið haldin að vorlagi í tengslum við árshátíð skólans hefur líklega ekki verið haldin alveg samfleytt. Yfirleitt (þó ekki alltaf) hefur hljómsveit úr skólanum flutt tónlistina undir söng keppenda, og að keppni lokinni er haldið ball.