Big band FÍH [2] (1984-)

Ekkert big band hafði verið starfandi innan FÍH frá árinu 1975 þegar sveit tók til starfa undir því nafni 1984. Það var í reynd sama sveit og hafði verið starfrækt undir nafninu Big band ´81 og Big band Björns R. Einarssonar en nafni hennar var breytt 1984. Starfsemin til þessa dags hefur ekki verið alveg samfleytt öll þessi ár en hún er enn starfandi efti því sem best verður vitað.

Big band FÍH hefur að geyma tónlistarfólk sem komið er lengra í námi sínu við Tónlistarskóla FÍH og margir þekktir tónlistarmenn hafa leikið með sveitinni, meðal þekktra nafna má nefna Sigurð Flosason, Hilmar Jensson, Tómas R. Einarsson, Jóel Pálsson, Samúel Jón Samúelsson, Óskar Guðjónsson, Ómar Guðjónsson, Snorra Sigurðarson og Davíð Þór Jónsson, svo nokkur nöfn séu nefnd.

Ekki er að finna miklar upplýsingar um stjórnendur sveitarinnar í gegnum tíðina, Björn R. Einarsson var fyrsti stjórnandi hennar en einnig hefur Edward Frederiksen stjórnað henni. Allar frekari upplýsingar um það mætti gjarnan senda Glatkistunni.