Big band ´81 (1981-84)

Big band ´81

Big band ´81 átti sér líklega nokkurn aðdraganda. Björn R. Einarsson hafði sett saman fjórtán manna hljómsveit í anda stórsveita fjórða áratugarins, sem starfaði og kom fram árið 1978 en það gæti einnig hafa verið sama sveit og kom fram ári fyrr undir nafninu Big band 77.

Björn var einnig með átján manna big band sem stofnuð var 1979 innan FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna), sú sveit skemmti t.a.m. opinberlega í aðdraganda forsetakosninganna vorið 1980. Hér er gert ráð fyrir að þær sveitir séu í raun og hin sama og Big band ´81 eða eins konar undanfarar hennar.

Alltént lék Big band ´81 undir stjórn Björns á svokölluðu SATT-kvöldi vorið 1981. Sveitin, sem yfirleitt var skipuð átján til tuttugu manns, var skipuð blöndu af yngri og eldri meðlimum en margir þekktir tónlistarmenn voru innan hennar, þeirra á meðal voru Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari, Kristján Magnússon píanóleikari, Reynir Sigurðsson víbrafónleikari, Vilhjálmur Guðjónsson saxófónleikari, Sigurður Flosason saxófónleikari (nýorðinn sautján ára), Jóhann Morávek saxófónleikari, Sigurður Long saxófónleikari, Þorleikur Jóhannesson trompetleikari, Oddur Björnsson básúnuleikari, Árni Elfar básúnuleikari, Friðrik Theódórsson básúnuleikari, Guðmundur R. Einarsson trommuleikari, Þorleifur Gíslason saxófónleikari, Ellert Karlsson trompetleikari og Einar Bragi Bragason saxófónleikari. Sjálfur lék Björn R. Einarsson á básúnu.

Big band ´81 starfaði í fáein ár, fyrst undir því nafni en síðan var því breytt í Big band Björns R. Einarssonar og undir því heiti lék sveitin m.a. á tónleikum annars vegar til heiðurs Count Basie, hins vegar til heiðurs Gunnari Ormslev.

Það var svo um 1984 sem nafni sveitarinnar var breytt í Big band FÍH og undir því nafni starfaði sveitin í framhaldinu (sjá Big band FÍH [2]).