Bræðrabandalagið [1] (1988)

Bræðrabandalagið ásamt öðrum úr söngleiknum Næturgalanum

Hljómsveitin Bræðrabandalagið (einnig nefnt Bræðralagsbandið) var í raun Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar en hún hlaut þetta nafn tímabundið 1988 þegar sveitin flutti lag Magnúsar, Sólarsömbu í undankeppni Eurovision söngvakeppninnar. Sólarsamba naut reyndar töluverðra vinsælda og gerir enn, og hefur komið út á fjölda safnplatna í gegnum árin.

Meðlimir sveitarinnar voru auk Magnúsar sem lék á hljómborð, bróðir hans Finnbogi Kjartansson bassaleikari (og þaðan kemur líkast til nafn hennar), Gunnar Jónsson trommuleikari og Vilhjálmur Guðjónsson gítar- og saxófónleikari. Margrét Gauja Magnúsdóttir (Kjartanssonar) söng lagið með Magnúsi í keppninni en auk þess var Kristinn Svavarsson saxófónleikari með í flutningnum.

Bræðrabandalagið kom einnig við sögu í söngleiknum Næturgalinn – Ekki dauður enn, sem settur var á svið á Hótel Sögu þetta sama vor en söngleikurinn var byggður á tónlist Magnúsar Eiríkssonar og var undir leikstjórn Valgeirs Skagfjörð. Sveitin lék jafnframt á plötu Magnúsar Eiríkssonar og Mannakorna sem kom út um sumarið og bar einmitt titilinn Mannakorn 5: Bræðrabandalagið.