Vesturfararnir (1987-89)

Hljómsveitin Vesturfararnir varð til haustið 1987 þegar þrír brottfluttir Bílddælingar fengu það verkefni að setja saman hljómsveit fyrir árshátíð Leikfélagsins Baldurs á Bíldudal.

Þremenningarnir voru þeir Gísli Ragnar Bjarnason gítarleikari, Helgi Hjálmtýsson bassaleikari og Þórarinn Hannesson gítarleikari og söngvari en auk þeirra léku á árshátíðinni feðgarnir Ástvaldur Hall Jónsson hljómborðsleikari og Viðar Örn Ástvaldsson trommuleikari sem höfðu æft sér fyrir vestan á meðan hinir þrír æfðu sunnan heiða.

Vesturfararnir störfuðu áfram þótt í breyttri mynd yrði, á næstu tveimur árum lék sveitin í nokkur skipti og voru Helgi, Gísli og Þórarinn fastir liðsmenn hennar en aðrir sem komu við sögu hennar voru G. Hjalti Jónsson trommuleikari, Bjarni Þór Sigurðsson gítarleikari, Víkingur Gunnarsson trommuleikari og Ragnar Jónsson hljómborðsleikari.