Vetrargarðurinn í Tívolí [tónlistartengdur staður] (1946-63)

Loftmynd af Tívolí-garðinum, Vetrargarðurinn í horninu til vinstri

Veitinga- og skemmtistaðurinn Vetrargarðurinn var með allra vinsælustu dansstöðum sem starfræktur hefur verið í Reykjavík en hann var um leið umdeildur vegna orðspors sem af honum fór. Vetrargarðurinn var hluti af Tívolíinu í Vatnsmýrinni sem einnig naut mikilla vinsælda um tíma,

Upphafið má rekja aftur til stríðsloka en árið 1945 stofnuðu nokkrir menn hlutafélag utan um rekstur á tívolí-garði sem þeir hugðust setja á laggirnar. Svo fór að félagarnir fengu tveggja hektara lóð í Vatnsmýrinni sunnan við Njarðargötu og hófu strax undirbúning m.a. með því að ræsa fram svæðið til að þurrka það en þarna var botnlaus mýri.

Þá voru keypt tívolítæki frá Danmörku og Englandi, m.a. skotbakkar, bílabraut og Parísarhjól en tækin voru fremur fá og fábrotin til að byrja með, þá var útbúin tjörn í tívolígarðinum. Síðar var smám saman bætt við þennan kost með hringekjum, speglasal og fleiri tækjum, einnig hinum svokalla áttfótungi sem þótti alræmt tæki og stóð mörgum stuggur af því uns því var lokað og tekið niður. Sú flökkusaga gekk reyndar að stúlka hefði stórslasast í áttfótungnum þegar karfa með hana innanborðs hentist af tækinu – sú saga fór af stað þegar einhver sá körfuna liggjandi á jörðinni við hlið tækisins. Hið rétta var að þarna var um eðlilegt viðhald að ræða. Átttfótunginn frægi var hins vegar tekinn niður og fjarlægður þegar í ljós kom að allar legur í honum voru ónýtar sökum mikillar hreyfingar á honum vegna undirlagsins í mýrinni.

Tívolíið opnaði sumarið 1946 og varð strax feikilega vinsæll meðal fólks á öllum aldri, börn og unglingar sóttust fyrst og fremst í tívolítækin en veitingahúsið innan svæðisins, sem hlaut nafnið Vetrargarðurinn höfðaði meira til hinna fullorðnu. Þar rak hlutafélagið kaffihús fyrstu árin en síðan var rekstur Vetrargarðsins leigður út og varð því alls ótengdur tívolíinu. Fyrstur til þess að leigja reksturinn var Dani að nafni Dahlgaard en Helga Marteinsdóttir (síðar kennd við Röðul) tók við rekstrinum eftir hann og annaðist hann til ársins 1959 þegar starfsmaður hennar, Sigurbjörn Eiríksson tók við og rak Vetrargarðinn þar til yfir lauk. Sigurbjörn varð síðan þekktur veitingamaður og rak m.a. Klúbbinn.

Tívolí og Vetrargarðurinn

Fyrstu árin voru einungis lokuð böll í Vetrargarðinum en þau voru þá iðulega haldin af félagssamtökum og öðrum sem leigðu húsið en frá og með árinu 1951 voru þar haldnir opnir dansleikir við miklar vinsældir. Staðurinn hafði aldrei vínveitingaleyfi en aðeins örfáir slíkir voru þá í Reykjavík. Þess í stað voru seldar þar léttar veitingar, kaffi og gos en gestir voru ekki í neinum vandræðum með að smygla með sér áfengi og höfðu til þess ýmis konar ráð. Því var oft fjörugt á dansleikjum Vetrargarðsins og slagsmál voru þar fastur liður þótt þau væru mestmegnis utandyra. Staðurinn fékk því smám saman á sig fremur neikvæðan stimpil vegna þessa samkoma sem minntu einna helst á sveitaböll, en einnig var hávaðasamt í Vatnsmýrinni og höfðu margir s.s. nágrannar tívolísins, horn í síðu Vetrargarðsins.

Vetrargarðurinn var staðsettur í norðurenda Tívolí-garðsins og var á einni hæð en turn var fyrir miðju hússins, framhliðin á húsinu (sem sneri inn í Tívolí-garðinn) var mestmegnis úr gleri og setti það mikinn svip á salinn innandyra en hljómsveitirnar sem þar spiluðu voru á eins konar upphækkuðum palli fyrir miðju hans.

Tívolíið sjálft var einungis opið yfir sumartímann og fyrsta sumarið var reyndar opið alla daga við mikla aðsókn þrátt fyrir að mörgum þætti staðsetningin svolítið óheppileg, nokkuð frá miðbænum og varla göngufært þangað. Þessum mikla fjölda þurfti að svara með nokkrum fjölda starfsmanna og þegar mest var voru þeir um fjörutíu talsins. Hins vegar sást þegar nýjabrumið fór af því að það gæti ekki gengið til lengdar að hafa opið alla daga og lengst af var því aðeins opið á kvöldin og um helgar. Vetrargarðurinn var aftur á móti opið flest kvöld og þar voru iðulega haldnir dansleikir fyrir fullu eða hálf fullu húsi.

Fyrsta húshljómsveitin þar eftir að staðurinn var opnaður almenningi 1951 var Hljómsveit Jan Morávek en Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar og síðan Hljómsveit Karls Jónatanssonar tóku síðan við, til ársins 1956 voru þessar sveitir einar um hituna en skipt var örar um sveitir síðar og þá komu til sögunnar hljómsveitir eins og Plútó kvintettinn, Hljómsveit Svavars Gests, Falcon, Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar, H.J. kvintettinn, Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar og margar fleiri. Einnig kom fyrir að auglýst væri tónlist leikin af segulbandi.

Tívolí 1947

Hlutafélagið utan um tívolíið annaðist reksturinn fyrstu sjö árin en árið 1952 keypti Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) tívolíreksturinn og ætlaði félagsmönnum að vinna þar í og með í sjálfboðavinnu, það reyndist ógjörningur þar sem íþróttafólkið var sjálft önnum kafið við æfingar og keppni yfir sumartímann og því gekk reksturinn alltaf illa hjá ÍR. Þá var aðsóknin að tívolíinu einnig farin að dala en fyrir þann tíma var ekki óalgengt að um tíu þúsund manns sóttu garðinn yfir helgi. Enn syrti í álinn og meðal annars vegna tíðarfars en aðsóknin datt mjög niður þegar rok og slagveðursrigning lá yfir höfuðborgarsvæðinu en veðurfar var oft með þeim hætti sumrin um miðjan sjötta áratuginn. Eitt sumarið var til að mynda aðeins opið í tólf daga. Árið 1959 tók Guðmundur Þórðarson yfir reksturinn af ÍR, hann hafði verið almennur starfsmaður og annast síðan ráðningu skemmtikrafta í tívolíinu en varð síðan eins konar verkstjóri á svæðinu, hann lét útbúa íbúð innan tívolísins þar sem hann síðan bjó ásamt eiginkonu sinni.

Samhliða dansleikjum var einnig boðið upp á skemmtiatriði, bæði í Vetrargarðinum og í tívolíinu sjálfu. Þar má nefna skemmtikrafta sem fluttu söngatriði, gítarspil eða annan hljóðfæraslátt, vísnasöng og gamanþætti en einnig voru vinsælir erlendir skemmtikraftar fluttir til landsins í því skyni, þar var bæði um að ræða tónlistarfólk og fjöllistafólk sem sýndu listir sínar en fyrrnefndur Guðmundur Þórðarson annaðist innflutninginn á skemmtikröftunum. Eitt vinsælasta skemmtiatriðið á tívolí-árunum voru fegurðarsamkeppnirnar en bæði voru haldnar fegurðarsamkeppnir kvenna og karla. Aðbúnaðurinn fyrir skemmtikraftana var þó fremur frumstæður og ekki mun hafa verið salerni fyrir þá, segir svo frá að fegurðardrottningar og aðrir skemmtikraftar hafi þurft að pissa í fötur og bíða jafnvel fáklædd (í sundfötum eða litlu bættari) í nístingskulda baksviðs.

Guðmundur flutti einnig inn dýr sem hann leigði frá dýragörðum víðs vegar að erlendis, og gerði tilraun með dýragarð innan tívolísins vorið 1956. Sú tilraun var endurtekin í nokkur skipti en gekk ekki til lengdar, dýrin voru flutt aftur til „síns heima“ á haustin því ekki gátu þau haft hér vetursetu en þeirra á meðal má nefna ljón, apa, leðurblökur og fleira. Sjálfur fékk Guðmundur að gjöf lítinn björn sem hann hélt heima hjá sér en þurfti að láta hann frá sér þegar haustaði, hann sagði síðar frá því í blaðaviðtali að óprúttnir aðilar hefðu eitt sinn hellt áfengi í björninn þar sem hann var í búri sínu og hann hefði síðan sofnað með bros á vör – daginn eftir þegar þynnkan lét til sín taka var ekki eins góð fyrir bangsann.

Hluti tívolí-svæðisins

Eftir 1956 má segja að leiðin hafi legið niður á við ef svo má segja. Þegar minnst var tíu ára afmælisins (það sama ár) var talað um að á aðra milljón manna hefðu sótt tívolíið heim en upp frá því dalaði aðsóknin mjög svo, ástæður sem fyrr hafa verið nefndar s.s. veðurfar átti sök á því og í beinum tengslum við það fækkaði erlendum skemmtikröftum sem svo dró auðvitað enn meira úr aðsókninni. Þá var um þetta leytið einnig farið að halda skipulagðar útihátíðir um stóru sumarhelgarnar úti á landsbyggðinni sem þýddi að þorri unga fólksins fór út á land, til að mynda um verslunarmannahelgina en þær helgar höfðu áður verið með þeim allra aðsóknarmestu í tívolíinu.

Sumarið 1961 var það komið í almenna umræðu að tívolíið og umhverfi þess væri orðið í niðurníðslu enda hafði viðhaldi þá verið haldið í lágmarki, þá var nokkuð farið að sjá á Vetrargarðinum en gólf hússins hafði sigið á nokkrum stöðum, sem auðvitað má beint rekja til mýrinnar undir því. Það kom því ekki á óvart þegar tilkynnt var að Vetrargarðinum yrði lokað um áramótin 1962-63, reyndar var ástæðan sú að bráðabirgðaleyfi sem gefið hafði verið út af heilbrigðiseftirlitinu var að renna út, en það sneri mestmegnis að hávaðamengun sem erfitt var reyndar að koma í veg fyrir.

Sumarið 1963 var tívolíið einnig lokað og þar með var sögu þessa merka skemmtigarðs lokið eftir sautján ára starfsemi. Guðmundur og eiginkona hans bjuggu í húsi sínu inni á svæðinu framan af vetrinum 1963-64 en þegar ákveðið var taka rafmagn af tívolísvæðinu vegna eldhættu snemma árs 1964 fluttu þau í burtu. Ekki leið langur tími þar til skemmdir voru unnar á húsakynnum tívolí-skemmtigarðsins og svæðið lagt í rúst, allar rúður voru brotnar í framhlið Vetrargarðsins (á þriðja hundrað rúða), tívolítæki og tól eyðilögð á svæðinu og ýmislegu stolið í leiðinni.

Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar í Vetrargarðinum

Í kjölfarið keypti Hafskip svæðið, hreinsaði til á því og setti þar upp vöruskemmu, tívolítækjunum var líklega flestöllum hent en einhver þeirra voru seld úr landi, Guðmundur Þórðarson gerði tilraun til að kaupa hluta þeirra með rekstur í huga en fékk ekki leyfi fyrir þeim. Einhver húsanna stóðu áfram í Vatnsmýrinni en Vetrargarðurinn var að lokum rifinn árið 1987.

Margir minnast Tívolís í Vatnsmýrinni og Vetrargarðsins með hlýju og söknuði enda voru nokkrar kynslóðir sem skemmtu sér í tækjum garðsins og við dans og gleði skemmtistaðarins, á þeim tímum þegar almenn afþreying fyrir börn og unglinga var af skornum skammti.

Þá hafa tónlistarmenn og rithöfundar minnst staðarins með einum og öðrum hætti, bæði Megas og Stuðmenn hafa gert tívolíið að yrkisefni í tónlist sinni og reyndar tileinkuðu þeir síðarnefndu tívolíinu breiðskífu sína, Tívolí, sem út kom árið 1976, þar má heyra lög eins og titillagið Tívolí, Á skotbökkum, Speglasalur, Hr. Reykjavík (sem vísar til fegurðarsamkeppni karla) og Hveitibjörn, sem fjallaði beint og óbeint um Sigurbjörn Eiríksson. Þá er lagið Í stórum hring mót sól bein skírskotun í skilti sem hengt var upp við bílabrautina í tívolíinu. Pétur Gunnarsson gerði tívolíið einnig að umfjöllunarefni í skáldsögu sinni, Punktur, punktur, komma, strik, Þórunn Elfa Magnúsdóttir kom inn á efnið í bók sinni um Megas, Sól í Norðurmýri, og þannig mætti áfram telja.