
MA félagar í Sjallanum á Akureyri
MA félagar var blandaður kór sem starfaði innan Menntaskólans á Akureyri í tæplega áratug, á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.
Það munu hafa verið þeir Sigurður Demetz kórstjóri og Ævar Kjartansson þáverandi nemi í skólanum (síðan dagskrárgerðarmaður) sem höfðu frumkvæði að því að stofna kórinn innan MA haustið 1967 og var fjöldi meðlima hans strax um tuttugu manns. Sigurður varð stjórnandi kórsins frá upphafi og stýrði honum alla tíð. Lengi vel voru kórmeðlimir tuttugu og fjórir talsins og gekk hann því undir nafninu 24 MA félagar en þegar fjöldi hans breyttist varð nafnið MA félagar ofan á. Mest voru á fjórða tug söngfélaga í kórnum og eðli málsins samkvæmt varð töluverð endurnýjun kórmeðlima enda menntaskólanámið aðeins fjögur ár.
MA félagar urðu fljótt vinsælir skemmtikraftar og kórinn var oftsinnis fenginn til að skemmta utan skólans mest norðanlands, reyndar reis frægð hans hæst þegar hann söng í sjónvarpsþætti við undirleik Hljómsveitar Ingimars Eydal, þá hafði sjónvarpið einungis verið starfandi í um tvö ár og einhverjir meðlima kórsins höfðu ekki einu sinni séð slíkt tæki. Það sama ár söng kórinn tvö lög inn á safnplötuna Unga kirkjan: trúarsöngvar, sem var gefin út af Æskulýðssambandi kirkjunnar í Hólastifti.

MA félagar
MA félagar fóru sumarið 1970 í söngferðalag til Færeyja og með í för var m.a. hljómsveitin Laxar sem sá um undirleik með kórnum en annars var Kári Gestsson undirleikari hans. Kórinn söng yfirleitt lög í léttari kantinum öfugt við marga kóra á þeim tíma og annaðist Jan Morávek útsetningar á mörgum þeirra. Kórinn starfaði til ársins 1976 en þá hætti hann fremur snögglega, þá höfðu risið upp deilur innan hans og tvær fylkingar tókust á um hvort velja ætti léttari eða þyngri söngdagskrá.
Kórinn kom saman á tveimur stórafmælum Sigurðar kórstjóra síðar en þá höfðu margir meðlima kórsins ekki sungið síðan á menntaskólaárum sínum.