Smárakvartettinn á Akureyri (1935-65)

Smárakvartettinn á Akureyri ásamt Jóni Þórarinssyni

Smárakvartettinn á Akureyri er meðal allra þekktustu tónlistarflytjenda höfuðstaðs Norðurlands en kvartettinn naut geysilegra vinsælda um allt land meðan hann starfaði og jafnvel lengur því lengi eftir að hann var hættur störfum ómuðu lög hans í Ríkisútvarpinu. Kvartettinn gaf út nokkrar plötur á meðan hann starfaði en jafnframt var gefin út veglegt heildarsafn hans um aldamótin með fjöldann allan af „týndum upptökum“ úr fórum Ríkisútvarpsins.

Tvennar sögur fara af því hvenær Smárakvartettinn eða Smárinn eins og hann var oft kallaður norðan heiða, var stofnaður. Þannig herma sumar heimildir að hann hafi verið settur á laggirnar árið 1935 sem passar við þá staðreynd að 30 ára afmælistónleikar voru haldnir árið 1965, en flestar heimildir (og þ.á.m. tengdar heildarútgáfunni árið 2000) segja hann hafa verið stofnaðan haustið 1936, mönnum ber þó nokkurn veginn saman um hvernig það kom til.

Kvartettinn var stofnaður innan Karlakórs Akureyrar sem hafði þá verið starfandi um nokkurra ára skeið undir stjórn Áskels Snorrasonar, það mun hafa verið Sveinn Bjarman sem fékk hugmyndina eftir að hafa heyrt nokkra félaga sína syngja saman á kóræfingu og í kjölfarið hóaði Áskell kórstjóri nokkra kórfélaga í kvartett í því skyni að syngja nokkur lög á árshátíð kórsins sem þá var framundan. Hann fékk jafnframt Jón Þórarinsson til að raddþjálfa og stjórna kvartettnum. Kórfélagarnir fjórir voru þeir Jón Guðjónsson fyrsti tenór, Sverrir Magnússon annar tenór, Gústav Elís Berg Jónasson fyrsti bassi og Magnús Sigurjónsson annar bassi, og þannig var Smárakvartettinn skipaður fyrst um sinn.

Söngurinn á árshátíðinni fékk góðar viðtökur og úr varð að kvartettinn starfaði áfram undir stjórn Jóns Þórarinssonar, sá tók stundum lagið með kvartettnum einnig og gaf jafnframt tóninn en fyrstu árin sungu þeir félagar án undirleiks, Jón mun einnig hafa verið sá sem gaf Smárakvartettnum nafn sitt.

Smárakvartettinn hóf nú að skemmta við ýmis tækifæri, bæði ásamt Karlakór Akureyrar en einkum þó á öðrum vettvangi. Kvartettinn söng t.d. oft á samkomum tengdum verkalýðsdeginum 1. maí næstu árin en einnig á alls kyns söngskemmtunum.

Úr söngskrá kvartettsins 1944

Á þessum fyrstu árum var reyndar fátt sem benti til að kvartettinn yrði jafn stórt nafn og síðar varð, og árið 1940 hætti hann reyndar störfum þegar Sverrir þurfti að draga sig í hlé vegna veikinda í hálsi. Kvartettinn starfaði þá ekkert í um eins og hálfs árs skeið en tók aftur til starfa haustið 1941 og var þá all nokkuð breyttur. Sverrir hafði þá dregið sig í hlé rétt eins og Jón Guðjónsson og í þeirra stað komu nýir tenórar, Jóhann Konráðsson (Jói Konn) fyrsti tenór og Jón Jakobsson Bergdal annar tenór litlu síðar, Smárakvartettinn hélt því áfram og þegar nýr stjórnandi, Áskell Jónsson tók við kórstjórn Karlakórs Akureyrar haustið 1943 af áðurnefndum Sveini Bjarman (sem hafði þá stjórnað kórnum í eitt ár) varð Áskell sérlegur undirleikari kvartettsins og lék m.a. undir á fyrstu sjálfstæðu tónleikum Smárakvartettsins sem haldnir voru í Nýja bíói á Akureyri haustið 1944, þá var Jón Þórarinsson ennþá stjórnandi kvartettsins og tók reyndar lagið með honum á þeim tónleikum.

Á næstu árum varð nafn Smárakvartettsins stöðugt þekktara og urðu þeir töluvert stórt nafn á norðanverðu landinu enda skemmtu þeir víða á árshátíðum, afmælisveislum og öðrum skemmtunum og tónleikum þar sem söngs var að vænta, þá munu þeir jafnframt hafa sungið í útvarpinu um miðjan fimmta áratuginn. Það var svo sumarið 1953 að Jón Bergdal lést en hans sæti tók bróðir Jóhanns, Jósteinn Konráðsson sem annar tenór. Þar með var komin sú útgáfa Smárakvartettsins sem átti eftir að starfa óbreytt allt þar til þeir hættu störfum haustið 1965. Um svipað leyti og Jósteinn kom inn í kvartettinn byrjaði Jakob Tryggvason sem undirleikari hópsins.

Hróður Smárakvartettsins barst nú orðið mjög víðar en áður, kvartettinn söng áfram mikið á heimaslóðum á Norðurlandi, þeir sungu mikið á skemmtunum í nágrannabyggðalögum og fóru í tónleikaferðir til Sauðárkróks, Blönduóss og um haustið 1954 komu þeir suður til Reykjavíkur og héldu þar tónleika í fyrsta sinn, það var í Gamla bíói en einnig fóru þeir félagar um Suðurland og Suðurnesin og sungu á Selfossi, Hellu, Njarðvíkum og Hafnarfirði auk þess sem þeir héldu tónleika í Hlégarði, sums staðar var tónleikahald þeirra tengt héraðsmótum og jafnvel dansleikjahaldi. Í þessari suðurferð hljóðritaði Smárakvartettinn jafnframt tíu lög sem áttu svo eftir að koma út á fimm 78 snúninga hljómplötum á vegum Tónika útgáfunnar sem fóstbræðurnir Kristján Kristjánsson (KK) og Svavar Gests starfræktu um skeið. Jóhann söng þá einnig inn á plötur í Ríkisútvarpinu í þessari sömu ferð. Kvartettinn söng mikið þetta ár og munu hafa komið fram einu sinni til tvisvar í viku allt þetta sumar, þeir höfðu á þeim tíma jafnframt sungið á hundruðum tónleika á Norðurlandi síðan þeir byrjuðu að syngja opinberlega árið 1936.

Plöturnar fimm komu út árið 1955, tvær þær fyrstu um vorið og hinar skömmu síðar – lögin tíu voru: Það er svo margt / Góða nótt, Blærinn í laufi / Við lágan bæ, Draumkvæði / Fyrst ég annars hjarta hræri, Kvöldið er fagurt / Logn og blíða og Í ljúfum lækjarhvammi / Manstu ekki vina. Hér má segja að kvartettinn hafi náð hvað mestri hylli, þeir félagar höfðu komið suður til tónleikahalds haustið á undan og plöturnar komu svo út í kjölfarið þannig að Smárakvartettinn var þar með orðinn landsþekktur fyrir söng sinn og heyrðist nú heilmikið leikinn í útvarpinu auk þess sem plöturnar fimm hlutu heilmiklu útbreiðslu og sölu. Svo brá reyndar við að Smárakvartettinn var ekki áberandi í tónleikahaldi í framhaldinu og ekki einu sinni á heimaslóðum fyrir norðan, og líklega var um einhvers konar frí að ræða eftir mikið álag árin á undan.

Smárakvartettinn

Það var ekki fyrr en 1957 sem fór aftur að kveða að kvartettnum en þá héldu þeir víða tónleika samhliða héraðsmótum stjórnmálahreyfinganna norðan og austanlands og til dæmis fóru þeir félagar í söngferðalag um Austurland og Austfirði. Kvartettinn söng auðvitað mest á sumrin og þá fóru þeir lengra frá átthögunum, sungu á héraðsmótum jafnvel suður í Borgarfirði og afmælishátíð Kaupfélags Langnesinga austur á Þórshöfn en mikið t.d. í Vaglaskógi þar sem haldnir voru dansleikir um hverja helgi, á hestmannamótum og bændahátíðum. Á veturna komu þeir töluvert fram í heima- og nágrannabyggðalögunum á þorrablótum, árshátíðum og þess konar samkomum, og fengu t.a.m. mikið hrós þegar þeir sungu á tónleikum fyrir eldri borgara á Akureyri.

Þannig gekk þetta allt til ársins 1965 en það ár var haldið upp á þrjátíu ára afmæli kvartettsins með tónleikahaldi og menn ekki lengur þau unglömb sem þeir voru fyrrum, Gústav og Magnús höfðu þá verið með frá upphafi. Í tilefni af þessu stór afmæli var afráðið að halda til Vestfjarða í tónleikaferð en þar hafði Smárakvartettinn aldrei sungð á tónleikum, einnig hafði verið ráðgert að fara um suðaustanvert landið en af því varð þó ekki. Kvartettinn hélt vestur síðsumars eftir að hafa skemmt í Vaglaskógi um verslunarmannahelgina, og var fyrst sungið í Húnavatnssýslu á leiðinni – í Ásbyrgi í Miðfirði áður en blásið var til tónleika í Tjarnarlundi í Dölum og svo á sunnanverðum Vestfjörðum, í Birkimel á Barðaströnd, svo Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík og Ísafirði. Einnig hafði jafnvel verið gert ráð fyrir að fara á Snæfellsnes í bakaleiðinni en ekki liggur fyrir hvort af því varð, líklega hefur það ekki verið því talað hefur verið um Vestfirðina sem síðasta áfangastað Smárakvartettsins.

Tónleikaferðin um Vestfirði varð því svanasöngur Smárakvartettsins en sögu hans var þó reyndar ekki alveg lokið því tveimur árum síðar voru þeir félagar kallaðir saman á nýjan leik og þeir fengnir til að syngja í sjónvarpsupptöku í desember 1967 en þátturinn var sýndur í febrúar 1968. Ríkissjónvarpið hafði tekið til starfa haustið 1966 en ekki er ljóst hvort þessar upptökur hafa varðveist, ef svo er væri um mikilsverð menningarverðmæti að ræða því það væru líkast til einu lifandi myndirnar sem varðveittar eru með Smárakvartettnum.

78 snúninga plöturnar fimm sem komið höfðu út á vegum Tónika útgáfunnar árið 1955 höfðu verið endurútgefnar á tveimur 45 snúninga smáskífum á vegum Fálkans árið 1965 og 1967 undir titlunum The Akureyri Clover Quartet og The Akureyri Clover Quartet (Vol. 2) en þá höfðu gömlu útgáfurnar verið uppseldar og ófáanlegar um árabil. Það var svo árið 1973 sem Fálkinn gaf lögin út öðru sinni (fyrir utan Það er svo margt) ásamt sjö lögum með MA-kvartettnum, undir titlinum Úrvals sönglög en um fyrstu „split-plötu“ Íslandssögunnar var þarna líklega að ræða. Þessi útgáfa var kærkomin aðdáendum Smárakvartettsins og hún fékk t.a.m. frábæra dóma í Tímanum, tíu ár liðu svo uns hún kom út á kassettuformi.

Smárakvartettinn á Akureyri 1965

All mörg ár liðu þar til hægt var að heyra söng Smárakvartettsins á Akureyri á geisladiskum, tvö lög höfðu reyndar komið út á safnplötunni Söngvasjóður árið 1993, annars vegar Blærinn í laufi sem komið hafði út 1955 og hins vegar Abba-labba-lá sem ekki hafði komið út áður, en það var svo aldamótaárið 2000 sem Egill Örn Arnarson á Svalbarðseyri stóð fyrir veglegri heildarútgáfu á tónlist Smárakvartettsins. Egill sem var tengdasonur sr. Bolla Gústavssonar (sonar Gústavs Jónasssonar) safnaði saman tuttugu og sex lögum úr ýmsum áttum með kvartettnum og meðal þeirra voru sautján sem ekki höfðu komið út áður – níu þeirra úr fórum Ríkisútvarpsins frá árinu 1945 með Jón Bergdal innanborðs. Egill gaf plötuna út sjálfur með styrk ýmsissa sjóða og samtaka og var mikið til útgáfunnar vandað, m.a. með ítarlegum texta í bæklingi sem fylgdi. Í kjölfarið stofnaði Egill svo minningarsjóð um Smárakvartettinn í því skyni að styrkja efnilega söngnemendur við Tónlistarskóla Akureyrar, í þessu samhengi var jafnframt gerður sjónvarpsþáttur um Smárakvartettinn þar sem sr. Bolli gegndi hlutverki þular. Þar með var má segja að menningarverðmætum hafi bjargað með einstaklingsframtaki en lög Smárakvartettsins höfðu þá ekki verið aðgengileg almenningi um áratuga skeið.

Á þessari öld hafa jafnframt komið út nokkur lög með kvartettnum á safnplötum eins og Óskastundinni (2002) og Svona var það 1955 (2005), auk safnplötunnar Ljúflingslög (2002) sem tileinkuð var söngferli Jóhanns Konráðssonar.

Efni á plötum