Gildrumezz (1998-2003)

Gildrumezz

Hljómsveitin Gildrumezz starfaði í Mosfellsbænum um nokkurra ára skeið en hún sérhæfði sig í tónlist bandarísku rokksveitarinnar Creedence Clearwater Revival.

Nafn sveitarinnar kom til af því að meðlimir hennar komu annars vegar úr Gildrunni og hins vegar Mezzoforte en þeir voru Karl Tómarsson trommuleikari, Birgir Haraldsson söngvari, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari og Jóhann Ásmundsson bassaleikari.

Aðalvígi sveitarinnar var Álafoss föt best í Mosfellsbænum og þar mun sveitin hafa leikið í um áttatíu sinnum en hún lagði áherslu á CCR prógramm eins og áður segir, Gildrumezz fór síðar einnig víðar og hélt tónleika.

Gildrumezz starfaði frá því síðsumars 1998 og spilaði sleitulítið fram á haustið 2000 en minna fór fyrir þeim félögum eftir það, sveitin lék eitthvað fram á haustið 2001 en hvarf þá af sjónarsviðinu um tíma en spilaði svo í nokkur skipti haustið 2003 áður en hún lagði upp laupana.

Vorið 2009 var sveitin í raun endurreist með Ingólf Sigurðsson sem trymbil en þá hafði hún tekið upp nafnið CCReykjavík.

Gildrumezz sendi frá sér sextán laga plötu sem bar heitið Rock‘n roll Creedence Clearwater Revival og innihélt helstu smelli CCR, hún seldist ágætlega og fékk góða dóma í Degi en slaka í Fókus, fylgiriti DV.

Efni á plötum