Gildran (1985-2013)

The Trap

Rokkhljómsveitin Gildran starfaði í áratugi í Mosfellsbænum / Mosfellssveitinni og var lengi órjúfanlegur hluti af  menningarlífi bæjarins. Sveitin sendi frá sér fjölda platna, náði um tíma allnokkrum vinsældum en þó aldrei nægum til að teljast meðal allra stærstu böndum landsins, þrautseigja er hugtak sem nokkrir blaðamenn notuðu um sveitina en mörgum þótti með ólíkindum hversu lengi sveitin starfaði án þess að fá fyllilega þá viðurkenningu sem hún ætti skilið. Gildran skapaði sér ákveðinn stíl í tónlist sinni sem veitti henni mikla sérstöðu og var henni t.a.m. líkt við írsku sveitina U2 í upphafi þótt þeir sjálfir væru ekkert sérlega hrifnir af þeirri samlíkingu.

Þótt Gildran hefði starfað í nærri þrjá áratugi var saga þremenninganna sem skipuðu sveitina lengst af jafnvel enn lengri því þeir höfðu starfað saman undir ýmsum nöfnum frá árinu 1977, s.s. Venus, Party, Cosinus og síðast Pass. Gildran telst þó hafa verið stofnuð 1985 og sögðu þeir félagar síðar að í raun hefði þá verið byrjað á röngum enda því með því fyrsta sem sveitin afrekaði var að landa plötusamningi í Bretlandi.

Félagarnir þrír, Þórhallur Árnason bassaleikari, Birgir Haraldsson söngvari og gítarleikari og Karl Tómasson trommuleikari höfðu haldið hópinn í gegnum mest alla hljómsveita upptalninguna hér að ofan og tekið upp Gildrunafnið sumarið 1985 þegar þeir héldu til Bretlands að áeggjan bresks félaga síns sem þeir höfðu kynnst í Mosfellsbænum, þar tóku þeir upp nokkur lög í þeim þungarokksstíl sem sveitin hafði þá tileinkað sér (og sveitirnar á undan einnig) með upptökumanninum Mark Estdale. Estdale leist vel á efnið og bauðst til að koma til Íslands í ársbyrjun 1986 til að vinna frekar með þeim, sem þeir áttu reyndar ekkert frekar von á að myndi gerast en svo fór að hann tók upp með þeim tvö lög í hljóðverinu Mjöt og nánast lofaði þeim plötusamningi út á þau. Þetta voru lögin Good balance og Put up a front sem voru orðin töluvert breytt í meðförum Bretans, og reyndar miklu léttari tónlist en þeir Gildrumenn (eða The Trap eins og sveitin hugðist kalla sig á erlendum markaði) höfðu upphaflega lagt upp með. Þeir Gildru-liðar gerðu í framhaldinu plötusamning við bresku plötuútgáfuna Prism records um útgáfu tveggja laga smáskífu með upptökunum frá Estdale.

Gildran 1987

Þegar komið var fram á árið 1987 og dráttur hafði orðið á að platan kæmi út réðust þremenningarnir sjálfir í gerð breiðskífu hér heima en hún var hljóðrituð í Stemmu, hljóðveri Sigurðar Rúnars Jónssonar, á tuttugu og þremur tímum sem var aðeins lítið brot af þeim tíma sem lagið Good balance hafði verið tekið upp á. Breiðskífan sem var níu laga kom út um vorið (1987) og bar titilinn Huldumenn, lögin voru eftir þá Gildru-félaga en textarnir ortir af Þóri Kristinssyni. Huldumenn þótti titill nokkuð við hæfi þar sem fæstir vissu hvorki haus né sporð á sveitinni, platan fékk góða dóma í DV en seldist illa – þeir félagar komu þó að lokum út á núllinu. Platan er löngu ófáanleg og þykir eftirsóttur safngripur.

Gildran gerði sitt til að vekja athygli á sér og plötunni og spilaði nokkuð síðla sumars og um haustið, m.a. í sjónvarpsþættinum Rokkarnir geta ekki þagnað, lagið Mærin naut nokkurra vinsælda og er einn helsti minnisvarði plötunnar.

Eftir áramótin 1987-88 lagðist Gildran í híði um tíma meðan sveitin byrjaði að vinna að næstu plötu, enn varð bið á að smáskífan kæmi út hjá Prism útgáfunni og smám saman lognuðust væntingar þeirra félaga um frægð og frama í útlöndum útaf enda heyrðist ekki meira frá útgáfufyrirtækinu. Sveitin fór hins vegar á fullt í spilamennsku snemma um vorið og hugðust koma með látum inn á íslenska markaðinn með nýja plötu og spilamennsku í kjölfarið. Og það byrjaði ágætlega því sveitin var fengin til að hita upp fyrir bresku sveitina Uriah heep sem hélt hér tónleika um vorið, útgáfu plötunnar seinkaði hins vegar af óvæntum ástæðum en Birgir söngvari og gítarleikari varð fyrir því óláni að fingurbrotna og því var afráðið að fresta útgáfu breiðskífunnar til hausts. Gildran náði þó að leika nokkuð um sumarið og var nokkuð áberandi á stöðum eins og Duus húsi og Zeppelin en sveitin hitaði einnig upp fyrir aðra breska sveit, Status Quo.

Platan, Hugarfóstur, kom loks út um haustið sem fyrr segir, undir útgáfunúmeri hjá Steinum en líklega gáfu þeir plötuna þó út sjálfir, platan var níu laga eins og sú fyrri með lögum eftir meðlimi sveitarinnar og við texta Þóris. Platan kom út á vínyl og geislaplötu eins og títt var um það leyti en tvö aukalög (Mærin og Vorbragur af fyrri plötunni) var að finna á geisladiska-útgáfu hennar. Platan fékk prýðilegar viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna, s.s. í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Pressunni og DV en hún hafði verið hljóðrituð í Stemmu af Sigurði Rúnari Jónssyni (Didda fiðlu) rétt eins og fyrri platan. Þess má geta að platan Hugarfóstur var tekin upp á sama segulband og Huldumenn hafði verið tekin upp á, eftir á að hyggja sáu menn að það voru mikil mistök því þ.a.l. glataðist frumeintakið af fyrstu plötunni.

Gildran ásamt Uriah heep

Gildran fylgdi plötunni töluvert eftir með spilamennsku og að þessu sinni lék sveitin mikið á landsbyggðinni fram að áramótum. Sveitin gerði hið sama og árið á undan fyrri hluta árs 1989, lagði spilamennskuna til hliðar um nokkurra mánaða skeið á meðan sveitin tók til við að vinna næstu plötu sem kom út um vorið en var eins konar safn laga frá fyrri tíð (gamlar upptökur) auk nýs efnis, elsta efnið var frá 1985 en þar var einnig að finna lögin tvö sem ætluð höfðu verið smáskífunni sem aldrei kom út. Fyrir vikið þótti platan nokkuð sundurlaus en hún hlaut þó góða dóma í DV. Umslag plötunnar var nokkuð sérstætt en það var rammað inn með saumum meðfram hliðum þess, opið að ofan og var önnur hliðin lengri og lagðist yfir opið og niður á miðja plötu, það var saumastofan Ás sem sá um þann hluta útgáfunnar en platan sem var tíu laga var gefin út undir merki sveitarinnar. Platan bar nafn sveitarinnar og var gefin út í fimmtán hundruð eintökum.

Sveitin hafði komið sér upp ágætu fyrirkomulagi með eftirfylgni platna sinna fram að áramótum og plötuupptökum eftir áramótin, og svo varð enn og aftur, sveitin spilaði heilmikið um haustið 1989 og m.a. hitaði hún upp fyrir enn eina sveitina, að þessu sinni var það skoska sveitin Nasareth en eftir áramótin fór minna fyrir Gildrunni samkvæmt venju. Reyndar fór lítið fyrir sveitinni lengi framan af árinu 1990 utan þess að hún birtist lítillega um vorið, hins vegar heyrðist ný útgáfa með sveitinni af laginu Vorkvöld í Reykjavík sem Ragnar Bjarnason hafði gert ódauðlegt snemma á sjöunda áratugnum. Lagið heyrðist einnig í stuttmyndinni Raunasögu sem frumsýnd var um haustið, en Rósa Ingólfsdóttir lék aðalhlutverkið í henni. Útgáfa Gildrunnar af laginu var reyndar umdeild og ekki voru allir alls kostar sáttir við rokkaða útgáfuna í samanburði við sjálfan Ragga Bjarna. Alltént vakti lagið töluverða athygli og vinsældir og kom síðan út á næstu plötu, Ljósvakaleysingjunum sem kom út um síðar um haustið. Titillinn hafði að geyma létt skot á dagskrárgerðarmenn í útvarpi sem flestir nema á Rás 2 höfðu hunsað plötur sveitarinnar og tónlist Gildrunnar því fengið litla spilun á ljósvakamiðlunum. Platan fékk varla nema þokkalega dóma í DV en mjög góða í Morgunblaðinu en auk Vorkvölds í Reykjavík var lagið Andvökunætur nokkuð vinsælt, sem fyrr var Sigurður Rúnar Jónsson við upptökutækin en upptökur fóru fram í Stemmu.

Gildran

Á þessum tímapunkti hafði nýr liðsmaður gengið til liðs við sveitina sem hafði verið tríó fram til þessa, það var gítarleikarinn Guðlaugur Falk sem þá hafði spilað með sveitum eins og X-izt, C.o.t. o.fl. Guðlaugur hafði komið við sögu á plötunni og var þarna í beinu framhaldi orðinn fastur liðsmaður  sveitarinnar. Gildran var sem fyrr dugleg að fylgja plötunni eftir og sveitin kom m.a. fram í þætti Hemma Gunn, Á tali, þá var sveitin meðal fjölmargra sem spiluðu á Risa-jólarokk tónleikum á Hótel Íslandi á vegum útvarpsstöðvarinnar Útrás. Sveitin var heilmikið á ferðinni fram í febrúar 1991 en fór þá í nokkurra mánaða frí, þeir félagar spiluðu lítið um sumarið en komu þá fram ásamt fjölda annarra sveita á Rykkrokk tónleikunum í ágúst. Um haustið spilaði sveitin nokkuð, var þá að kynna nýtt efni en það var ekki fyrr en eftir áramótin 1991-92 að Gildran fór af stað fyrir alvöru til að kynna væntanlega breiðskífu, með tónleikaferð um landsbyggðina. Þá höfðu aftur orðið breytingar á skipan sveitarinnar, Sigurgeir Sigmundsson hafði tekið við gítarnum af Guðlaugi Falk rétt fyrir jólin en sá hafði gert garðinn frægan með sveitum eins og Drýsli, Start og Deild 1 svo einungis fáeinar séu nefndar. Sigurgeir hafði lítillega komið við sögu plötunnar sem kom út 1989.

Platan kom út um sumarið 1992 og varð líklega vinsælasta breiðskífa sveitarinnar, hún hét einfaldlega Út og var gefin út af Steinum, vinnutitill hennar hafði verið Í skjóli nætur. Sem fyrr er tónlistin að miklu leyti skrifuð á sveitina í heild en Birgir var þó mest áberandi þar, textarnir voru flestir eftir Ragnar Ólafsson sem var eins konar hirðskáld Gildrunnar að þessu sinni en sveitin tók sér mun lengri tíma til að vinna þessa plötu heldur en fyrri skífur sínar. Heilmikil þriggja vikna löng tónleika- og dansleikjaherferð fór af stað og var í samstarfi við tímaritið Samúel, sem gerði sveitinni og plötunni góð skil og hljómsveitarrúta Gildrunnar var merkt Samúel í bak og fyrir. Gildran var því nokkuð áberandi í ballmenningu sumarsins og stórsmellurinn Chicas (sem komst m.a. í efsta sæti vinsældalista Rásar 2) var kyrjaður í samkomuhúsum víða um land en lagið naut mikilla vinsælda, auk þess naut lagið Steggjastuð nokkurra vinsælda, fyrrnefnda lagið var sungið á spænsku og var því nokkuð á skjön við önnur lög plötunnar og þótti því riðla heildarmynd hennar nokkuð. Þess má geta að Hjalti „Úrsus“ bróðir Þórhalls bassaleikara var stundum með í för með eins konar aflraunakeppni til að trekkja að. Eins og nærri má geta fékk platan góða dóma í Samúel en einnig í DV en slakari í Pressunni, hún seldist ennfremur þokkalega. Sveitin spilaði heilmikið um haustið eftir balltörnina um sumarið og m.a. hitaði sveitin nú upp fyrir Jethro Tull á stórtónleikum á Akranesi.

Gildran og Samúel í samstarfi

Eftir áramótin 1992-93 fór Gildran í langt frí enda hafði sveitin þá verið á fullu síðustu mánuðina á undan, sveitin hafði um það leyti aflað sér nokkurra vinsælda á landvísu þótt hún næði aldrei þeim hæðum sem sveitir á borð við Sálin hans Jóns míns og SSSól náðu á ballmarkaðnum um það leyti, Gildran hafði þó fremur sterka stöðu á landsbyggðinni og auðvitað á heimaslóðum í Mosfellsbænum, tónlist sveitarinnar þótti höfða til breiðs hóps fólks og t.d. kom fyrir að hún væri fengin til að spila tónlist sína í afmælum og jafnvel jarðarförum. Ekki er víst að sjálft rokkið hafi endilega höfðað til fólksins heldur jafnvel karaktereinkenni sveitarinnar, sál hennar og samhæfing en þeir voru ítrekað nefndir sem ein langlífasta sveit íslenskrar tónlistarsögu – þá kom oft upp hugtakið þrautseigja eins og segir hér fyrr í umfjölluninni.

Í raun má segja að Gildran hafi keyrt sig smám saman niður frá þessum tímapunkti, sveitin sendi frá sér útgáfu af gamla slagaranum House of the rising sun sumarið 1993 en að öðru leyti heyrðist lítið frá sveitinni næstu misserin, um veturinn 1993-94 fluttust þeir Þórhallur og Sigurgeir út á land starfa sinna vegna, Þórhallur austur á Eskifjörð en Sigurgeir til Vestmannaeyja og lagðist þá Gildran í dvala. Á meðan starfræktu þeir Karl og Birgir dúettinn 66 sem sendi frá sér tvær plötur næstu árin. 1994 gerði Gildran baráttulag fyrir íþróttafélagið Aftureldingu í Mosfellsbæ en ekki liggur fyrir hvort þeir Birgir og Karl komu einir að því eða öll sveitin, það lag var síðan endurunnið árið 2011.

Árið 1997 kom út tveggja platna safn Gildrunnar undir titlinum Gildran í tíu ár. Alls voru þrjátíu og fjögur lög á plötunni en aðeins eitt þeirra hafði ekki komið út áður, fyrrnefnd útgáfa af House of the rising sun. Safnplatan fékk góða dóma í DV og seldist í um fimm þúsund eintökum.

Gildran 1992

Það var svo árið 1998 að Gildran kom saman á nýjan leik eftir fimm ára hlé og hélt þá tónleika í Mosfellsbænum og fáeina að auki, um það leyti átti sveitin einnig lag (Veturinn verður hlýr) á safnplötunni Maður lifandi. Sveitin lagðist að því loknu aftur í dvala og í framhaldinu varð Gildrumezz til en það var sveit sem sérhæfði sig í tónlist Creedence Clearwater Revival og innihélt Karl, Birgi og Sigurgeir (sem þarna var aftur fluttur heim frá Vestmannaeyjum) auk bassaleikara Mezzoforte, Jóhanns Ásmundssonar en nafn sveitarinnar var myndað úr Gildrunni og Mezzoforte.

Árið 2000 kom Gildran saman á nýjan leik en Jón Rafnsson hafði þá tekið við bassaleiknum af Þórhalli sem skotið hafði rótum austur á Eskifirði. Um sumarið lék sveitin nokkuð á tónleikum og kom söngvarinn Eiríkur Hauksson fram með henni í nokkur skipti, þá lék sveitin á dansleikjum á skemmtistaðnum Broadway og Eiríkur með henni auk Péturs Kristjánssonar um veturinn 2000-01. Gildran var áfram nokkuð virk á árinu 2001 og hafði þá Jóhann Ásmundsson tekið við keflinu af Jóni Rafnssyni, í raun var þá orðið um sömu sveit að ræða og Gildrumezz og spiluðu þeir félagar áfram eitthvað fram eftir árinu 2002. Eftir þessa törn varð aftur nokkurra ára hlé á spilamennsku Gildrunnar og menn að sinna annars konar verkefnum, það var síðan árið 2006 sem sveitin lét aftur að sér kveða, þá lék sveitin m.a. í poppmessum sem og á tónlistarhátíðinni Í túninu heima í Mosfellsbæ. Jóhann Ásmundsson var þá bassaleikari með sveitinni sem fyrr. Enn lagðist Gildran í dvala en birtist aftur árið 2010 og fögnuðu þá þrjátíu ára afmæli eins og það var nefnt, þá hlýtur að hafa verið miðað við hljómsveitina Pass. Sveitin hélt þá stóra afmælistónleika í Hlégarði í Mosfellsbænum um vorið og var Þórhallur bassaleikari sveitarinnar í þetta sinnið eftir margra ára fjarveru, um það leyti var gefið út að sveitin væri byrjuð að vinna að nýrri plötu og sendu þeir félagar af því tilefni frá sér nýtt lag. Sveitin spilaði í nokkur skipti um sumarið og kom einnig fram í spurningaþættinum Popppunkti, en sendu síðan frá sér tónleikaplötu um haustið sem hafði að geyma upptökur frá afmælistónleikunum, Vorkvöld: Live 1. maí 2010. Útgáfu þeirrar plötu var fagnað með útgáfutónleikum í Austurbæ en á henni var einnig að finna nýja lagið sem þeir höfðu sent frá sér um vorið, Blátt blátt. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu.

Gildran starfaði nú áfram en ekki finnast upplýsingar hver annaðist bassaleikinn, sveitin mun t.d. hafa spilað á Grænlandi en einnig var eitthvað áfram unnið við plötuna sem verið var að taka upp, og áætlað var að hún kæmi út um haustið 2012. Þeirri plötu áttu einnig að fylgja upptökur frá tónleikum sveitarinnar frá því um haustið 2010 – væntanlega úr Austurbæ. Vorið 2012 sendi sveitin frá sér enn eitt nýtt lag, Eyjan og í framhaldinu urðu þeir félagar nokkuð virkir í tónleikahaldinu, spiluðu m.a. á tónlistarhátíðinni Gærunni á Sauðárkróki og á off venue tónleikum á Iceland Airwaves um haustið. Sveitin lék einnig á Húnavöku um vorið 2013 en fljótlega eftir það var gefið út snemma sumars að sveitin væri hætt störfum, öllum að óvörum. Aldrei hefur verið gefið út hvað olli því að Gildran lagði upp laupana en Birgir og Sigurgeir hættu skyndilega og hætti sveitin í kjölfarið á því. Gildran hefur þrátt fyrir það síðan 2013 a.m.k. tvívegis komið saman, annars vegar árið 2016 á styrktartónleikum fyrir Guðlaug Falk (d. 2017) fyrrverandi gítarleikara sveitarinnar sem stóð þá í veikindum, hins vegar í Vestmannaeyjum 2018.

Sjö plötur liggja eftir Gildruna auk einnar óútgefinnar smáskífu á ensku, þar fyrir utan hefur tónlist sveitarinnar sjaldan komið út á safnplötum og er skýringuna að finna í því að sveitin gaf iðulega plötur sínar út sjálf og var því aldrei hluti af útgáfuplönum stóru plötuútgefendanna, áður er þó nefnd safnplatan Maður lifandi en auk þess má nefna Ástarperlur 2 (1998) og Popp-frelsi (2001).

Efni á plötum