Fylluljóð

Fylluljóð
(Lag / texti: erlent lag (Kväservalsinn) / engar upplýsingar)

Á sumrin er gaman að ganga sér
um göturnar eftir að rökkva fer,
ef Fylla er liggjandi úti í ál,
og ekki er á varðbergi nokkur sál.

Viðlag
Gæti ég krækt í danskan dáta,
sem dálítið borðalagður er,
þá mundu þær Rúna og Ranka gráta
og rauðeygðar stara á eftir mér.

Hún Ólafía er að vara’ oss við
að vingast við pilta að dönskum sið.
Það drægi á eftir sér dilka smá,
er dálítill tími er liðinn frá.

viðlag

Já, sú getur ritað oss ráðin fín
með reynsluna og gráleitu hárin sín,
því hún hefur aldrei þá sælu séð,
að sitja í faðmlögum dáta með.

viðlag

En nú skal ég segja ykkur sögu af mér,
ég sá það eitt kvöld, hvar hann Jensen fer.
Þá kalla ég í hann að koma þar.
Ó, kæreste, segir hann, hvad behar?

viðlag

Ég varð dálítið undirleit
almættið sjálft það á hæðum veit,
er þarna gengum við hlið við hlið,
og hann var að spjalla um lágnættið.

viðlag

Svo gengum við saman uns sólin var
sigin í bládjúpu öldurnar.
Þá settumst við úti undir Grandagarð.
Ó guð, hvað hann Jensen þá sætur varð.

viðlag

Svo kyssti hann mig ellefu kossa þar,
sem kvöldskugginn mestur og afdrep var
og sagði: Du er så söd og fin,
södeste, elskede pigen min.

viðlag

En þá heyrðist blástur við bryggjusporð,
mér brá svo því lýsa’ ekki nokkur orð,
því bátskömmin litla beið nú þar,
og bjáninn hann Jensen minn þotinn var.

viðlag

Ég sá þá hvað herstjórnin hláleg er,
að heimta hann Jensen minn strax af mér,
fyrst átti ég kost á að eignast mann,
svo indælan, sætan og dannaðan.

viðlag

Seinna ég ein út á Granda gekk.
Ó guð, hvað ég ákafan hjartslátt fékk,
því Jensen og Sigga sátu þar
í sömu laut og ég forðum var.

viðlag

Gæti ég krækt í danskan dáta,
sem dálítið borðalagður er,
þá mundu þær Rúna og Ranka gráta
og rauðeygðar stara á eftir mér.

[engar plötuupplýsingar]