Garðakórinn [1] (1965-91)

Garðakórinn á sjöunda áratugnum

Garðakórinn (hinn fyrri) starfaði í ríflega aldarfjórðung og sinnti einkum messusöng við Garðakirkju á Álftanesi.

Kórinn var stofnaður haustið 1965 að undirlagi Guðmundar H. Norðdahl sem þá var skólastjóri tónlistarskólans í Garðahreppi, hann var stjórnandi kórsins og organisti kirkjunnar í upphafi en Guðmundur Gilsson tók við þeim starfa árið 1967 og gegndi því embætti til ársins 1971 þegar Eiríkur Sigtryggsson tók við. Eiríkur stjórnaði kórnum einungis í um eitt ár og tók Þorvaldur Björnsson við af honum og sinnti starfinu til ársins 1984 að minnsta kosti en þá hafði messuhald í kirkjunni orðið fátíðara enda hafði hreppurinn stækkað hratt og var orðinn að sveitarfélaginu Garðabæ og Garðakirkjan nánast komin út í sveit. Kórinn starfaði því eitthvað stopulla og ekki liggur fyrir hver stjórnaði honum eða sinnti organistastarfinu næstu árin, 1988 var Þröstur Eiríksson organisti en ekkert liggur fyrir um kórstjórnanda. Haustið 1989 hætti kórinn að syngja í messum í Garðakirkju og hann var síðan lagður endanlega niður í byrjun árs 1991.

Í kjölfarið var Kór Garðakirkju formlega stofnaður (reyndar hafði Garðakórinn stöku sinnum verið nefndur því nafni) en sá kór hlaut síðar nafnið Kór Vídalínskirkju þegar sú kirkja var vígð.

Garðakórinn söng sem fyrr segir mestmegnis við messuhald í Garðakirkju og oft sungu þekktir einsöngvarar með kórnum í slíkum messum, þeirra á meðal má nefna Sigurð Björnsson, Sigurveigu Hjaltested og Svölu Nielsen. Kórinn mun einnig eitthvað hafa haldið tónleika fyrir utan hefðbundið messuhald.