Grái fiðringurinn (1994-2009)

Grái fiðringurinn

Það er svolítið erfitt að skrásetja sögu hljómsveitarinnar Gráa fiðringsins en hún gekk um tíma samtímis undir nafninu Hljómsveit Jakobs Ó. Jónssonar og Grái fiðringurinn, hér er miðað við  ártalið 1994 þegar sveitin tók upp nafnið Grái fiðringurinn.

Jakob Ó. Jónsson hafði starfrækt sveitir í eigin nafni frá árinu 1970 og árið 1980 stofnaði hann eina slíka sem spilaði á dansstöðum borgarinnar, á árshátíðum, þorrablótum og þess konar viðlíka skemmtunum. Þegar Bogomil Font (Sigtryggur Baldursson) söng með sveitinni einhverju sinni árið 1994 í Hreðavatnsskála í Borgarfirði tók hann upp á því að nefna sveitina Gráa fiðringinn sem mæltist vel fyrir meðal meðlima sveitarinnar enda voru þeir flestir komnir á miðjan aldur. Þar með hlaut sveitin þetta nafn sitt og gekk undir því þar til hún hætti störfum líklega árið 2009.

Fjöldi þeirra sem lék með sveitinni er allmikill og erfitt að henda reiður á hverjir komu við sögu hennar undir fyrra nafninu og svo hinu síðara. Eðli málsins samkvæmt var söngvarinn og hljómsveitarstjórinn Jakob alla tíð í henni en aðrir sem hafa verið nefndir eru t.d. Ólafur Kolbeinsson trommuleikari, Edwin Kaaber bassaleikari, Steindór Steinþórsson bassaleikari, Reynir Jónasson harmonikkuleikari, Þórður Árnason gítarleikari, Einar Valur Scheving trommuleikari, Jóhann Ásmundsson bassaleikari, Magnús Eiríksson gítarleikari, Sigfús Óttarsson trommuleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari, Gunnar Þórðarson gítarleikari, Jóhann Hjörleifsson trommuleikari og sjálfsagt margir aðrir. Þessi upptalning er þó með þeim fyrirvara sem nefndur er hér að ofan.