
Cuba libre
Hljómsveitin Cuba libre (einnig ritað Cuba libra) var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar og var þá nokkuð dugleg við spilamennsku á öldurhúsunum.
Bræðurnir Jón Kjartan bassaleikari og Trausti Már trommuleikari Ingólfssynir (úr Stuðkompaníinu frá Akureyri) skipuðu sveitina við þriðja mann, Aðalstein Bjarnþórsson gítarleikara en Tryggvi J. Hübner kom einnig við sögu sem gítarleikari sveitarinnar. Þá var sjálfur Rúnar Júlíusson um tíma viðloðandi sveitina, lék með henni um tíma m.a. við kynningu á plötu sinni, Rúnar og Otis (árið 1992).
Cuba libre starfaði frá hausti 1991 og fram á haust 1993.