FÁLM [félagsskapur] (1973-74)

Auglýsing í Morgunblaðinu

FÁLM (Félag áhugafólks um leiklist og músík) var félagsskapur sem starfaði í um ár og hélt utan um skemmtisamkomur í Tónabæ.

Það mun hafa verið Tónabær sem hafði forgöngu um að félagsskapurinn var stofnaður og hugsanlegt er að Pétur Maack hafi verið með fingurna í því. Það var svo um páskana 1973 sem hugmyndin var fyrst sett fram og var hún hugsuð sem lausn fyrir unglinga á aldrinum fjórtán til nítján ára sem ekki höfðu aldur til að komast á skemmtistaði fullorðinna. Hún var á þá leið að unglingarnir sjálfir myndu annast skemmtiatriði af ýmsu tagi, þar sem leiklist og tónlist skyldu vera í aðalhlutverki.

Hin svokölluðu FÁLM-kvöld byrjuðu svo um sumarið og voru haldin á sunnudagskvöldum, vikulega fram að áramótum 1973-74 en svo hálfs mánaðalega á nýju ári og fram á vorið 1974. Fjölmargt ungt og óreynt tónlistarfólk lét ljós sitt skína á þessum FÁLM-kvöldum og bílskúrssveitir voru þar á meðal, svo ekki hefur stemmingin verið ósvipuð í húsinu og um áratug síðar þegar Músíktilraunir hófust þar. Meðal tónlistarflytjenda sem þarna stigu sín fyrstu spor var hljómsveitin Melchior, og svo söngkonurnar Linda Gísladóttir og Helga Möller en einnig kom fram fjöldi fólks sem kom síðan ekkert nálægt tónlist síðar meir.

FÁLM-kvöldin í Tónabæ voru ekki endurvakin þrátt fyrir góðar viðtökur.