Faxafón [útgáfufyrirtæki] (1960-94 / 2010-)

Merki Faxafón útgáfunnar

Faxafón var útgáfufyrirtæki Hauks Morthens söngvara en nokkrar plötur hans komu út undir merkjum útgáfunnar.

Fyrstu tvær plöturnar komu út árið 1960 en það voru 7 tommu smáskífur með lögunum Gústi í Hruna / Fyrir átta árum og Með blik í auga / Síldarstúlkan. Síðar komu þrjár breiðskífur með Hauki út hjá Faxafón-útgáfunni, Með beztu kveðju (1968), Nú er Gyða á gulum kjól (1978) og safnplatan Melódíur minninganna (1984).

Haukur Morthens lést árið 1992 en tveimur árum síðar var jólaplata hans frá 1964, Hátíð í bæ: 20 jóla- og barnasöngvar endurútgefin á geisladisk í nafni Faxafón útgáfunnar en hún hafði þá verið ófáanleg í áratugi, það var að undirlagi ekkju Hauks, Ragnheiðar Magnúsdóttur en hún átti útgáfuréttinn af efni hans að hluta að honum látnum.

Þegar Ragnheiður lést árið 2009 tóku synir þeirra við útgáfuréttinum og endurreistu Faxafón árið 2010 í því skyni, þótt þeir bræður hafi ekki sjálfir gefið út plötur undir merkjum útgáfunnar áttu þeir þátt í að semja um endurútgáfu jólaplötunnar á geisladisk og vínyl árið 2011 og líklega aftur 2019, fyrir hönd Faxafón.