Félag harmonikuunnenda í Húnavatnssýslum [félagsskapur] (1981)

Merki félagsins

Félag áhugafólks um harmonikkuleik hefur verið starfandi í Húnavatnssýslum um árabil, fyrst undir nafninu Harmonikufélagið Blönduósi en síðan Félag harmonikuunnenda í Húnavatnssýslum frá árinu 1991.

Félagið var stofnað vorið 1981 á Hótel Blönduósi og var Þórir Jóhannsson kjörinn fyrsti formaður þess, hann gegndi embættinu um árabil en Svavar Jónsson tók við af honum í stuttan tíma og síðan Alda Friðgeirsdóttir í nokkur ár áður en Þórir tók aftur við, Sólveig Inga Friðriksdóttir varð síðan formaður en ekki liggur fyrir hver gegnir því starfi nú eða hvort félagið sé enn starfandi.

Félag harmonikkuunnenda í Húnavatnssýslum hefur staðið að ýmsum harmonikkusamkomum í gegnum tíðina nyrðra, félagið kom að fjölskylduhátíð í Húnaveri um árabil ásamt Skagfirðingum og Siglfirðingum einnig stundum, en svo hefur það einnig haldið fleiri harmonikkuhátíðir í samstarfi við önnur félög. Þá hefur félagið einnig haldið hagyrðingakvöld í tengslum við dansleiki, verið í samstarfi við tónlistarskólann á Blönduósi og gefið honum t.d. harmonikkur.

Árið 2004 festi félagið kaup á eigin húsnæði (Ósbæ) og þar fór lengi vel flest öll starfsemi þess fram, húsið var jafnframt leigt út til samkomuhalds. Hin síðustu ár virðist sem lítið hafi verið um að vera í félagsstarfinu og þegar þetta er ritað liggur ekki ljóst hvort Félag harmonikuunnenda í Húnavatnssýslum sé enn starfandi.