Furstinn

Furstinn
(Lag / texti: Sverrir Stormsker / Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Vor öld vill eiga fursta
en engan frjálsan mann,
og sá mun svikinn verða,
er sannleikanum ann.
Því þykir augljóst orðið,
að öllum henti best
að gera þá að guðum,
sem geta logið mest.

Í slíku réttarríki
er ráðum furstans hlýtt.
Hans orð er opinberun,
hans áform stórt og nýtt.
Hann setur svip á landið
og sannar hverri byggð,
að undirlægjueðlið
sé æðsta hetjudyggð.

Í þágu hans á þjóðin
að þegja og vera til.
Það hefnir sín að heimta
af honum reikningsskil.
Hann hefur vopn og vígi
og veitist furðu létt
að tjá með eigin orðum
hvað er og verður rétt.

Og atkvæði er öllum
til æðsta þingsins greitt,
sem hópast um sinn herra,
en hugsa ekki neitt.
Menn fara fögrum orðum
um furstans lagasafn.
Það glepur þá, að glæpnum
er gefið annað nafn.

Er allt er fært í fjötra
og fellt í skipulag,
þá halda þjáðir þegnar
sinn þjóðhátíðardag.
Og að því stefnir öldin
að auka höft og bann
og eignast ótal fursta,
en engan frjálsan mann.

[af plötunni Sverrir Stormsker – Nú er ég klæddur og kominn og rokk og ról]