Íslenski kammerkórinn [1] (1986)

Íslenski kammerkórinn ásamt Garðari Cortes stjórnanda

Sumarið 1986 var Garðari Cortes óperustjóra Íslensku óperunnar boðið að koma með kór til að syngja á sumartónlistarhátíð í Kaupmannahöfn sem þá stóð fyrir dyrum. Það varð úr að hann setti saman þrettán manna blandaðan kór sem samanstóð af meðlimum úr Óperukórnum og nokkrum einsöngvurum, allt hámenntað tónlistarfólk, þeirra á meðal voru Viðar Gunnarsson, Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Hrönn Hafliðadóttir.

Kórinn starfaði á fáeinar vikur eða mánuði á meðan þessu verkefni stóð, hópurinn hafði í raun ekki fengið nafn en var kynntur ytra sem Íslenski kammerkórinn og festist það nafn við kórinn. Á sumartónlistarhátíðinni söng kórinn tvenns konar prógramm, annars vegar íslensk þjóðlög í bland við þyngra efni og hins vegar kirkjulega tónlist sem hann söng á tónleikum sem haldnir voru í kirkjum. Í þessari ferð söng kórinn jafnframt á tónleikum í Tívolíinu í Kaupmannahöfn en fór einnig út á landsbyggðina til tónleikahalds.

Íslenski kammerkórinn var lagður niður fljótlega eftir heimkomuna til Íslands.