Kammerkórinn (1966-69)

Kammerkórinn

Kammerkórinn

Kammerkórinn undir stjórn Rutar L. Magnússon var fyrsti kammerkórinn sem starfaði hérlendis, og því var eðlilegt að hann fengi einfaldlega bara nafnið Kammerkórinn.

Forsagan að stofnun Kammerkórsins var sú að hér á Íslandi var fyrirhuguð norræn tónlistarhátíð haustið 1967 og því var ákveðið að setja á stofn kammerkór fyrir þennan viðburð en stofnun hans var haustið 1966.

Rut stjórnaði kórnum frá upphafi en hann innihélt sautján söngvara í fremstu röð og fékk iðulega mjög góða dóma hvar sem hann kom fram. Á fyrrgreindri norrænu tónlistarhátíð voru að vísu hátt í þrjátíu manns í kórnum en í framhaldinu var þeim fækkað.

Kammerkórinn söng á ýmis konar tónleikum, hann kom einnig fram í nokkur skipti í útvarpi og sjónvarpi, og reyndar var söng hans útvarpað margsinnis eftir að hann hætti störfum, en það var líklega árið 1969. Það ár söng kórinn á plötunni Systkinin Vilhjálmur og Elly syngja saman.

Hljómeyki var stofnað 1974 og starfaði um tíma undir stjórn Rutar en ekki liggur fyrir hvort bein tengsl voru milli Kammerkórsins og Hljómeykis.