Url (1998-2003)

Url

Hljómsveitin Url hlaut nokkra athygli í kringum síðustu aldamót, sendi frá sér lag á safnplötu sem naut vinsælda og virtist vera að fá athygli frá erlendum útsendurum plötuútgefenda. Ekkert varð þó úr því og fljótlega eftir að sveitin sendi frá sér sína fyrstu og einu plötu hætti hún störfum.

Upphaf Urls má rekja til samstarfs þeirra Garðars Arnar Hinrikssonar (sem er öllu þekktari sem knattspyrnudómari) og Þrastar Jóhannssonar sem saman voru að búa til einhvers konar tölvupopp en þegar þeir bættu við mannskapinn vorið 1998 varð hljómsveitin til og tónlistin um leið töluvert rokkaðri. Aðrir meðlimir sveitarinnar voru þau Oscar Bjarnason hljómborðsleikari, Kjartan Bragi Bjarnason trommuleikari, Helgi Georgsson bassaleikari og ung og efnileg söngkona frá Hólmavík, Aðalheiður Ólafsdóttir (Heiða Ólafs).

Url fór á fullt um sumarið og lék þá töluvert, mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu en einvörðungu frumsamið efni, vorið 1999 sendi sveitin svo frá sér sitt fyrsta lag í útvarpsspilun, lagið So close og fáeinum vikum síðar kom lagið Song in A út á safnplötunum Svona er sumarið ´99 og síðar Pottþétt 17. Lagið naut töluverðra vinsælda um sumarið og vakti nokkra athygli landsmanna á sveitinni.

Url þótti hafa eitthvað sérstakt og erlendir útsendarar útgáfufyrirtækja settu sig í samband við sveitina. Menn voru vongóðir um að landa samningi og fyrrnefnt Song in A var sett á Icelandic pop favourites, safnplötu með íslenskum hljómsveitum ætlaða fyrir erlenda ferðamenn. Eitthvað varð áhugi útsendaranna þó endasleppur svo meðlimir sveitarinnar hættu fljótlega að hugsa út fyrir landsteinana en hljóðrituðu þess í stað tíu laga plötu með íslenskum textum vorið 2000. Um það leyti höfðu þær mannabreytingar orðið í sveitinni að Matthías Vilhjálmur Baldursson hafði tekið við af Oscari og lék hann því á plötuupptökunum.

Hljómsveitin Url

Sökum anna við hljóðversvinnslu lék Url lítið fyrri hluta ársins 2000 en var þó meðal hljómsveita sem léku á Reykjavík music festival hátíðinni um vorið. Það var alltaf yfirlýst stefna sveitarinnar að fara ekki á ballmarkaðinn og því lék sveitin mestmegnis á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu.

Platan kom út um haustið undir titlinum Þröngsýni, eigið útgáfufyrirtæki sveitarinnar Íslenzka upptökufélagið ehf gaf hana út. Þröngsýni fékk æði misjafna dóma, í raun ágæta í Morgunblaðinu fyrir utan texasmíðarnar, þokkalega í tímaritinu Sándi en afar slaka í Fókusi. Url fylgdi plötunni eitthvað eftir með spilamennsku fyrir jólin 2001, m.a. með útgáfutónleikum í Borgarleikhúsinu en spilaði lítið árið 2002 og í febrúar 2003 virðist sveitin alveg hafa verið hætt störfum.

Url kom aftur saman haustið 2014 á minningartónleikum á Café Rósenberg um Helga Georgsson bassaleikara en hann hafði látist nokkrum mánuðum fyrr.

Efni á plötum