Spur [2] (1995-99)

Spur

Hljómsveitin Spur var töluvert áberandi á ballmarkaðnum undir lok síðustu aldar en sveitin sendi frá sér tvö lög á safnplötu, þá naut söngkona sveitarinnar töluverðrar athygli þegar hún fór fyrir hönd Íslands í lokakeppni Eurovision en nokkrir síðar þekktir tónlistarmenn skipuðu reyndar þessa sveit auk hennar. Sveitin starfaði hátt í fjögur ár en þó með hléum. Mannabreytingar einkenndu nokkuð sveitina.

Spur var stofnuð sumarið 1995 en kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en snemma árs 1996 þegar hún hóf að leika á dansleikjum, einkum á höfuðborgarsvæðinu til að byrja með. Þá voru í sveitinni Telma Ágústsdóttir söngkona, Gunnar Þór Jónsson gítarleikari, Helgi Guðbjartsson trommuleikari og Sveinn Áki Sveinsson bassaleikari. Með vorinu jókst spilamennskan töluvert og lék Spur nokkuð á dansleikjum um sumarið og fór jafnvel út fyrir landsteinana til þess. Heilmiklar mannabreytingar áttu eftir að verða í sveitinni og um haustið hafði Tómas Jóhannesson tekið við trommuleiknum af Helga, fljótlega eftir það lagðist sveitin reyndar í dvala.

Spur birtist á nýjan leik eftir tæplega árshlé síðsumars 1997 og þá höfðu orðið töluverðar breytingar á skipan hennar, Telma söngkona og Gunnar Þór gítarleikari (sem voru þá orðin par) voru ein eftir af gamla hópnum en í stað hinna voru komnir Ingimundur Óskarsson bassaleikari og Eysteinn Eysteinsson trommuleikari en auk þess höfðu þau bætt við sig hljómborðsleikara, Ríkharði Arnar. Sveitin spilaði nokkuð um haustið með þessa liðsskipan og þá undir yfirskriftinni Eitt sinn Spur, ávallt Spur. Einnig mun Eiður Alfreðsson bassaleikari einhvern tímann hafa verið viðloðandi Spur en ekki liggur þó fyrir nákvæmlega hvenær.

Spur 1998

Það var svo snemma sumars 1998 sem Spur sendi frá sér tvö lög á safnplötunni Svona er sumarið ´98, það voru lögin Allt og Hvað hef ég gert, og vakti fyrrnefnda lagið nokkra athygli. Með lögin tvö að vopni lék sveitin mikið á dansleikjum um sumarið og var nú meira áberandi á landsbyggðinni en áður, þarna höfðu enn orðið mannabreytingar á sveitinni, Páll Sveinsson trommuleikari og Jón Örvar Bjarnason bassaleikari höfðu þá leyst þá Ingimund og Eystein af hólmi.

Spur var nú orðin býsna þekkt ballsveit og einkum hafði Telma söngkona vakið athygli og svo fór að hún að söng á jólaplötu sem kom út fyrir jólin 1998. Um áramótin eða fljótlega á nýju ári 1999 lagðist sveitin þó aftur í dvala en Telma var þá ólétt og svo fór reyndar að sveitin hætti störfum í kjölfarið, sjálfsagt hefur einnig spilað inn í að annar máttarstólpi sveitarinnar, gítarleikarinn Gunnar Þór gekk til liðs við Sóldögg um vorið en aðrir meðlimir sveitarinnar birtust í öðrum hljómsveitum, sumum þekktum s.s. Sólstrandargæjunum og Í svörtum fötum. Telma söngkona hlaut hins vegar öllu meiri athygli þegar hún fór ásamt Einari Ágústi Víðissyni sem fulltrúi Íslands í lokakeppni Eurovision með lagið Hvert sem er / Tell me vorið 2000.