Laxar (1966-71)

Laxar og Þorbjörg b1

Laxar og Þorbjörg

Hljómsveitin Laxar gerði garðinn frægan á norðanverðu landinu á árunum milli 1966 og 1971.

Laxar voru stofnaðir á Akureyri sumarið 1966 en heimildir um upphafsár hennar eru af skornum skammti, það var ekki fyrr en 1968 að söngkona kom til sögunnar en hún heitir Sæbjörg Jónsdóttir og var iðulega nefnd Lalla.

Sveitin gekk því undir nafninu Laxar og Lalla um það leyti. Sveitin lék einkum norðan- og austanlands en einnig fór hún til Færeyja og lék þar um nokkurra vikna skeið við miklar vinsældir. Með Löllu í sveitinni 1968 voru Grétar Sveinsson trommuleikari, Grétar Ingvarsson gítarleikari, Reynir Schiöth orgel- og píanóleikari og Kristinn L. Kristjánsson harmonikku- og bassaleikari.

Ári síðar, vorið 1969 var ný söngkona komin til starfa, Þorbjörg Ingvadóttir en hún var þá einungis sextán ára gömul. Aðrir sveitarmeðlimir voru þá Reynir orgelleikari, Grétar gítarleikari og Kristinn bassa- og harmonikkuleikari en í stað Grétars trommuleikara var nú kominn Rafn Sveinsson. Varla þarf að taka fram að sveitin kallaðist nú Laxar og Þorbjörg.

Þannig skipuð starfaði sveitin a.m.k. til vorsins 1971 en Akureyri var alltaf hennar höfuðvígi, það kom þó fyrir að Laxar léku í nágrannabyggðalögunum. Ekkert bendir til að sveitin hafi leikið sunnanlands en hún fór þó út fyrir landsteinana sumarið 1970 þegar hún fylgdi kór Menntaskólans á Akureyri til Færeyja og lék fyrir þarlenda.