Lava (1976-78)

Lava2

Lava

Hljómsveitin Lava var stofnuð í Svíþjóð sumarið 1976 af hjónunum Janis Carol söngkonu og Ingvari Árelíussyni bassaleikara ásamt Erlendi Svavarssyni trommuleikara, Ragnari Sigurðssyni gítarleikara og Ingva Steini Sigtryggssyni hljómborðsleikara en öll höfðu þau gert garðinn frægan með hljómsveitum hér heima, hópurinn fór gagngert til Svíþjóðar til að starfa við tónlist.

Sænskur umboðsmaður annaðist mál þeirra og sveitin spilaði hér og hvar um Svíaríki og Noreg en virtist ekki hafa slegið neitt sérstaklega í gegn þar, reyndar kvörtuðu þau yfir íhaldssemi Svía í tónlistarmálum og gamaldags tónlistarsmekk þeirra, í blaðaviðtölum hér heima.

Ragnar og Erlendur hættu um haustið 1977 og þá hafði sveitin nánast verið hætt störfum en Janis gaf þó allavega út eina tveggja laga plötu, óvíst er hvort Lava var tengt því verkefni en það hlýtur að teljast líklegt. Einnig hafði sveitin tekið þátt í einhvers konar hæfileikakeppni ytra sem hún sigraði í.

Lava var endurlífguð árið eftir og þegar hún kom til Íslands um sumarið (1978) var hún orðin sex manna, skipuð fjórum Íslendingum, þeim Janis, Ingvari, Ragnari gítarleikara sem aftur var kominn í hópinn og öðrum gítarleikara, Hannesi Jóni Hannessyni en auk þeirra voru nú tveir Svíar komnir í sveitina, þeir Anders Ersson hljómborðsleikari og Anders Eriksson trommuleikari.

Þegar hér var komið við sögu kallaði hópurinn sig Lava och Janis Carol í Svíþjóð en einungis Lava hér heima.

Hljómsveitin virðist hafa starfað fram á haust 1978 en þá fóru menn að tínast hvert í sína áttina, hjónin Janis Carol og Ingvar Árelíusson fluttu til Englands og Janis átti eftir að syngja töluvert þar, enda komin á heimaslóðir.