Sigrún Magnúsdóttir (?)

Glatkistan óskar eftir upplýsingum um söngkonu að nafni Sigrún Magnúsdóttir sem kom fram á nokkrum skemmtunum um miðjan áttunda áratug síðustu aldar sem trúbador og söng frumsamin lög við eigin gítarundirleik.

Sigrún kom t.a.m. fram á bindindismótinu í Galtalæk um verslunarmannahelgina 1975, á skemmtun á Hótel Sögu síðar sama sumar, á Þjóðlagahátíð ´76 í Austurbæjarbíói vorið 1976 og víðar en hún var um þetta leyti nemi við Verzlunarskóla Íslands (kom fram á Nemendamóti Verzló) og gæti því hafa verið fædd um eða eftir miðjan sjötta áratuginn.

Einnig gæti þessi sama Sigrún hafa sungið ásamt Ingibjörgu Þorbergs og fleirum lag Ingibjargar um Jólaköttinn en sú útgáfa lagsins kom út á jólaplötunni Jólaljós (1982), þá mun hún einnig hafa sungið raddir á plötu Fjörefnis A+ (1977).