Sigrún Ragnarsdóttir (1942-)

Sigrún Ragnarsdóttir

Sigrún Ragnarsdóttir er líklega öllu þekktari sem fegurðardrottning en söngkona en hún söng nokkuð með hljómsveitum á árum áður og m.a. inn á nokkrar hljómplötur með Alfreð Clausen.

Sigrún Margrét Ragnarsdóttir fæddist sumarið 1942 í Reykjavík og ólst þar að mestu upp en einnig á Akureyri. Hún kom fyrst fram í Silfurtunglinu á unglingsaldri ásamt fleiri ungum og upprennandi söngvurum sem vildu freista gæfunnar, söng og lék á gítar auk þess að syngja með Hljómsveit Aage Lorange.

Það var svo árið 1959 sem hún hóf að syngja með Hljómsveit Árna Ísleifs í Breiðfirðingabúð en sú sveit var einkum í gömlu dönsunum. Sigrún söng með þeirri sveit um veturinn 1959-60 og samhliða því kom hún einnig fram sem söngvari og dansari í revíusýningu í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll.

Sumarið 1960 var Sigrún svo kjörin fegurðardrottning Íslands en sú keppni var haldin í Tívolíinu í Vatnsmýrinni. Sá sigur vakti töluvert mikla athygli á henni og hún varð vinsæl söngkona með Hljómsveit Árna Ísleifssonar á Röðli þar sem hún söng ásamt Hauki Morthens en hann var þá meðal vinsælustu söngvara landsins. Haukur nýtti sér auðvitað vinsældir Sigrúnar og hún prýddi umslag smáskífu sem kom út með honum um það leyti.

Sigrún Ragnarsdóttir

Sigrún söng með fleiri hljómsveitum á þessum tíma, bæði með Hljómsveit Svavars Gests og Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar en vorið 1961 tóku við verkefni tengd þátttöku hennar í fegurðarsamkeppnum erlendis og þá lagði hún sönginn að mestu á hilluna, fyrst fór hún til Líbanon til að taka þátt í keppninni um Ungfrú Evrópu (þar sem hún hafnaði í áttunda sæti) og svo til Bandaríkjanna þar sem hún keppti í Miss International en hún lenti þar í fimmta sæti auk þess að vera kjörin vinsælasta stúlkan. Sigrún var fjarverandi svo mánuðum skipt af þessum völdum og kom ekki heim til Íslands fyrr en vorið 1962 en þá hafði hún sungið sitt síðasta á dansleikjum.

Söngferli hennar var þó ekki endanlega lokið því þrjár plötur komu út með henni þar sem hún söng syrpur þekktra laga ásamt Alfreð Clausen við undirleik Hljómsveitar Jan Morávek. Sú fyrsta kom út haustið 1962 og naut feikimikilla vinsælda, önnur var hljóðrituð snemma árs 1963 og kom út um sumarið og sú þriðja og síðasta kom svo út í febrúar 1964. Þá hafði hún einnig sungið raddir áður á plötu Sigurdórs Sigurdórssonar árið 1960.

Þess má geta að Sigurjón Samúelsson kenndur við Hrafnabjörg í Ísafjarðardjúpi, plötusafnari mikill gaf út plöturnar þrjár á geisladisk  löngu síðar en efni þeirra hafði þá verið ófáanlegt að mestu á stafrænu formi utan einnar eða tveggja syrpa sem höfðu komið út á safnplötum.

Efni á plötum