Sigrún Jónsdóttir [2] (1930-)

Sigrún Jónsdóttir

Sigrúnu Jónsdóttur má líklega telja fyrstu dægurlagasöngkonu Íslands sem eitthvað kvað að en hún var kornung farin að vekja athygli með Öskubuskum og litlu síðar sem söngkona dægurlagahljómsveita. Hún sendi frá sér nokkrar smáskífur á ferli sínum, bæði í samstarfi við aðra kunna söngvara og svo einnig ein. Hún fluttist svo til Noregs og hvarf af sjónarsviðinu hér heima en tónlist hennar lifir og heyrist enn reglulega leikin á ljósvakamiðlum.

Sigrún Erna Jónsdóttir er fædd (1930) og uppalin í Reykjavík, og komst á unglingsárum sínum á stríðsárunum í kynni við tónlist með margs konar hætti, það var t.d. mikið sungið á æskuheimili hennar og tólf ára gömul var hún komin í hljómsveit sem síðar varð Mandólínhljómsveit Reykjavíkur, söng þá einnig í barnakór undir stjórn Jóhanns Tryggvasonar og fjórtán ára gömul hafði hún ásamt nokkrum bekkjarsystrum sínum sett saman söngkvintett sem kom fram á skemmtunum innan skólans. Þessi söngkvintett hlaut nafnið Öskubuskur og þar léku tvær þeirra á gítara en Sigrún var síðar aðal undirleikari þeirra, hafði lært sjálf nokkuð á gítar og söng oft einnig einsöng, Sigrún stjórnaði sönghópnum og raddsetti fyrir hann.

Öskubuskur vöktu fljótlega mikla athygli og kom m.a. fram í barnatíma Þorsteins Stephensen í Útvarpinu og svo á fjölda skemmtana utan skólans, síðar fóru þær hringferð um landsbyggðina og skemmtu fólkinu í dreifbýlinu. Þær stöllur fóru síðar í sína hverja áttina en um miðjan sjötta áratuginn komu út nokkrar plötur þar sem Sigrún söng ásamt Margréti Björnsdóttur í nafni Öskubuskna, þar voru á ferð stórsmellir á borð við Bimbó, Sestu hérna og Bjartar vonir vakna sem nutu mikilla vinsælda.

Sigrún hafði þegar fimmtán ára gömul vakið nokkra athygli með Öskubuskunum í barnatíma Útvarpsins og í kjölfar þess þáttar bauð Ólafur Gaukur Þórhallsson henni að koma fram í Mjólkurstöðinni með hljómsveit sem hann hafði þá stofnað en þau Ólafur og Sigrún voru jafnaldra. Árið 1946 þegar Sigrún var einungis sextán ára hóf hún að syngja með GO kvintettnum í Mjólkurstöðinni og söng með þeirri sveit um veturirnn samhliða Öskubusku-ævintýrinu en það var þá í raun fyrsta hljómsveitin sem hún starfaði með, hún var þó ekki fastráðin og líklega voru söngkonur sjaldnast fastráðnar með hljómsveitum á þessum árum.

Sigrún ung að árum

Fleiri hljómsveitir fylgdu í kjölfarið, Sigrún söng t.d. með Hljómsveit Björns R. Einarssonar um tíma sem og KK sextettnum, síðar bættust við sveitir eins og Tríó Ólafs Gauks, Hljómsveit Aage Lorange sem hún söng töluvert mikið með, Hljómsveit Steinþórs Stefánssonar, Hljómsveit Karls Jónatanssonar, Hljómsveit Óskars Cortes, MAJ tríóið og fleiri sveitir áður en hún hóf aftur að syngja með KK sextettnum, Sigrún söng töluvert á SGT skemmtunum góðtemplara, m.a. með Hljómsveit Jan Morávek en tengdar þeim skemmtunum voru sönglagakeppnir þar sem hún kom nokkuð við sögu. Á þessum árum kom hún einnig mikið fram á kabarettsýningum, Öskubuskur sungu t.d. í revíum Bláu stjörnunnar og svo söng hún einnig á djasskvöldum en heilmikil djassvakning var þá að myndast í Reykjavík, Sigrún þótti hafa mikinn djass í sér og til er hljóðrituð útgáfa af laginu Cry me a river þar sem hún syngur við undirleik KK sextettsins, það kom út á plötunni Gullárin sem gefin var út með sextettnum árið 1984. Sigrún var kjörin söngkona ársins með miklum yfirburðum í vinsældakosningu Jazzblaðsins 1948, 49 og 50.

Sigrún giftist ung og eignaðist fimm börn, tvö þeirra voru þegar komin í heiminn þegar hún var tuttugu og eins árs gömul og því var hún lítið í sviðsljósinu 1951 og framan af árinu 1952 en þá um vorið hóf hún að syngja með Óskari Cortes og félögum í Iðnó og svo víðar eftir því sem leið á árið, og svo á næstu árum voru það sveitir eins og Hljómsveit Braga Hlíðberg, Hljómsveit Jónatans Ólafssonar, H.B. kvartettinn, hljómsveitir sem Björn R. Einarsson, Svavar Gests og Carl Billich stjórnuðu og fleiri sveitir auk þess sem hún kom áfram fram á sönglagaskemmtunum SGT og söng þar fjölda laga í keppnum þeim sem þar voru haldnar.

Sumarið 1953 birtist Sigrún í fyrsta sinn á hljómplötum en tvær slíkar komu þá út á vegum Íslenzkra tóna þar sem þau Alfreð Clausen sem þá var vinsælasti söngvari landsins sungu annars vegar Hvert einasta lag / Ástartöfrar, og hins vegar Lukta-Gvendur / I´ll remember April, lögin nutu hylli og tvö þeirra (Ástartöfrar og Lukta-Gvendur) komu löngu síðar út í meðförum Bjarkar og Tríós Guðmundar Ingólfssonar sem sýnir þá virðingu sem síðari kynslóðir hafa sýnt þessum lögum. Luktar-Gvendur var svo endurútgefið á 45 snúninga fjögurra laga plötu árið 1954 ásamt þremur lögum með Alfreði en slíkar plötur voru þá að ryðja sér til rúms hérlendis.

Sigrún Jónsdóttir

Um svipað leyti (1954) var rykið dustað af Öskubuskunum þegar þær Sigrún og Margrét Hjartar Björnsdóttir hljóðrituðu nokkrar tveggja laga plötur í þeirra nafni en þar á meðal voru smellir á borð við Bimbó, Hadderia haddera, Bjartar vonir vakna og Seztu hérna… Þess má og geta að plötusafnarinn kunni Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum gaf út á eigin vegum öll lög Öskubuskna (níu talsins) á geisladisk en aðeins lítið brot þeirra laga hafði þá verið gefið út á stafrænu formi.

Vorið 1955 kom út tveggja laga plata (Heyrðu lagið / Stína, ó Stína) þar sem þau Sigrún og Ragnar Bjarnason sungu við undirleik hljómsveitar undir stjórn Árna Ísleifs en þetta var ein af fyrstu plötum Ragnars. Um svipað leyti, sumarið 1955 var Sigrún ráðin til að syngja með KK sextett en sveitin hafði þá verið ráðin til að leika víðs vegar um Þýskaland í amerískum herstöðvum. Sextettinn fór utan í maí, sigldi til Kaupmannahafnar og kom þar við í danska ríkisútvarpinu og söng þar en hélt síðan til Þýskalands og lék þar víðs vegar um landið fram í september en þá kom hópurinn heim, Sigrún vakti iðulega mikla athygli fyrir söng sinn ytra og hlaut hvarvetna góða dóma fyrir hann.

Eftir að heim var komið söng Sigrún áfram með KK sextettnum í Þórscafe og einnig með hljómsveit sem Gunnar Ormslev starfrækti og síðsumars 1957 komu svo út tvær plötur með henni, annars vegar Gleymdu því aldrei / Blærinn og ég, og hins vegar Ljúfa vina / Næturfuglinn en Ragnar Bjarnason söng með henni á síðarnefndu skífunni, KK sextettinn lék undir á báðum plötunum en þau Sigrún og Ragnar voru þá bæði söngvarar sveitarinnar. Sigrún söng með sextettnum til hausts 1958 en hún var þá þunguð af fimmta barni sínu, eftir að hún kom aftur fram á sjónarsviðið haustið 1959 söng hún í kabarettsýningu ásamt Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og einnig um tíma með sveit undir stjórn Carls Billich.

Bertha Biering, Sigrún, Elly Vilhjálms, Helena Eyjólfsdóttir og Anna Vilhjálms við upptökur 1964

Með hljómsveit Magnúsar söng Sigrún inn á tveggja laga plötu (Marina / Vögguvísa) sem kom út á fyrri hluta árs 1960 en fyrrnefnda lagið varð töluvert vinsælt. Sveitin lék mikið á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum en þegar Magnús hljómsveitarstjóri hætti um vorið tók Sigrún við hljómsveitarstjórninni, hún var þá líkast til fyrsti kvenkyns hljómsveitarstjórinn á Íslandi og brautryðjandi að því leyti. Sveitin starfaði um nokkurra mánaða skeið í hennar nafni um sumarið en snemma um haustið bárust þær fréttir að Sigrún hygðist halda utan til Noregs og leita fyrir sér þar í tónlistinni, sjálf sagði hún síðar að hún hefði þurft á hvíld að halda en hún hafði þá verið lengi undir miklu álagi – hafði eignast fimm börn (og misst eitt þeirra aðeins fárra vikna gamalt 1959) og var ekki heilsuhraust um það leyti. Það fór reyndar svo í Noregi að hún gekk fljótlega til liðs við tónlistarmenn þar í landi, söng m.a. með hljómsveit Kjell Karlsen í norska útvarpinu og fyrir jólin 1960 kom út tveggja laga plata á vegum Íslenzkra tóna, hljóðrituð í Osló þar sem sveit Karlsen lék undir, á þeirri plötu er að finna lögin Augustin og Fjórir kátir þrestir, sem bæði nutu mikilla vinsælda og eru líklega þau lög sem haldið hafa nafni Sigrúnar helst á lofti. Önnur plata kom svo út á vegum RCA í Noregi árið 1961 þar sem sveit Karlsen lék með henni, á henni voru lögin Når du kommer hjem / Syng måltrost syng en það mun hafa verið síðasta platan sem Sigrún sendi frá sér í eigin nafni.

Sigrún söng á Hotel Viking í Osló í nokkra mánuði, gekk til liðs við Hljómsveit Ole Kristian Salatier og fór víðar um Noreg næstu misserin en ekki finnast margar heimildir um söngferil hennar þar í landi, hún kom til Íslands og dvaldi hér í nokkrar vikur um sumarið 1962, þá söng hún í um tíma í Glaumbæ og Næturklúbbnum en svo bjó hún hér heima í á annað ár 1964-65 ásamt norskum eiginmanni sínum en hún hafði þá slitið samvistum við fyrri eiginmann sinn. Þá söng hún aðallega í Leikhúskjallaranum með Nova tríóinu en einnig eitthvað með Tríói Einars Loga, hún kom þá við sögu sem bakraddasöngkona á fjögurra laga jólaplötu Ragnars Bjarnasonar og Elly Vilhjálms sem kom út haustið 1964 og var þá í síðasta skipti í mörg ár sem hún söng í plötuupptökum. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem þeir félagar Hilmar Örn Hilmarsson og Magnús Þór Jónsson (Megas) fengu Sigrúnu til að syngja bakraddir á plötu Megasar, Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella.

Sigrún Jónsdóttir 1977

Sigrún virðist fljótlega eftir Íslandsdvölina um miðjan sjöunda áratuginn hafa hætt að syngja og lagt tónlistarferilinn á hilluna, hún bjó áfram í Noregi og hefur reyndar alið þar manninn síðan. Hún átti í veikindum um margra ára skeið, glímdi við efnaskiptasjúkdóm en hafði að mestu leyti jafnað sig á honum á síðari hluta níunda áratugarinn. Þrátt fyrir fjölda vinsælda laga með Sigrúnu hafa rétthafar tónlistar hennar ekki séð ástæðu til að gefa út á safnplötu helgaðri henni einni en lög eins og Fjórir kátir þrestir, Marina, Luktar-Gvendur og Augustin, og Öskubuskulög eins og Bimbó, Bjartar vonir vakna og Seztu hérna… hafa komið út á fjölmörgum almennum safnplötum í gegnum tíðina s.s. Rokklokkum (1995), Svona var það… seríunni, Manstu gamla daga (2007), Aftur til fortíðar-seríunni, Rökkurtónum (1987), Stóru bílakassettu-seríunni, Óskalaga-seríunni og fjölmörgum öðrum slíkum plötum. Einnig hafa í seinni tíð komið út áður óútgefnar upptökur með Sigrúnu á plötum annarra listamanna, s.s. á áðurnefndri plötu KK sextettsins – Gullárin (1984) og á safnplötu með lögum Sigurðar Ólafssonar úr safnplötuseríunni Útvarpsperlur.

Efni á plötum