Afmælisbörn 28. júlí 2021

Stefán S. Stefánsson

Í dag eru á skrá Glatkistunnar níu tónlistartengd afmælisbörn:

Söngkonan Birgitta Haukdal frá Húsavík er fjörutíu og tveggja ára gömul í dag. Birgitta hafði sungið í söngsýningum á Hótel Íslandi þegar hún gerðist söngkona Írafárs haustið 1999 og sló þar heldur betur í gegn. Hún varð síðar fulltrúi Íslands í úrslitum Eurovision keppninnar 2002, hefur komið að margs konar tónlistarverkefnum og hefur auk þess gefið út þrjár sólóplötur. Birgitta hefur jafnframt vakið athygli fyrir barnabækur sínar um Láru.

Önnur söngkona (og leikkona), Ágústa Eva Erlendsdóttir á afmæli en hún er þrjátíu og níu ára í dag. Þekktasta hlutverk Ágústu Evu er sjálfsagt Silvía Nótt / Silvia Night sem var framlag Íslands í Eurovision 2006 en hún hefur einnig starfað nokkuð í leikhúsi og með fjöldanum öllum af tónlistarfólki s.s. Megasi. Ágústa Eva var í hljómsveitum eins og Etanól sem hafnaði í þriðja sæti Músíktilrauna 1999, Ske og Kritikal Mazz en hefur einnig starfað í dúettnum Sycamore tree.

Þriðja söngkonan, Þórunn Antonía Magnúsdóttir á afmæli í dag en hún er þrjátíu og átta ára gömul. Þórunn Antonía á nokkrar sólóplötur að baki en hún starfaði í Englandi um tíma. Hún var einnig ein af Trúbatrixum, starfaði með Tha Faculty hópnum á sínum tíma og hefur komið mjög víða við í tónlistarsköpun sinni.

Ólafur Bachmann Haraldsson trommuleikari er sjötíu og fjögurra ára gamall. Óli Bach lék með fjölmörgum hljómsveitum, einkum sunnlenskum, hér fyrrum og má þar nefna Limbó, Hauka, Hljómsveit Hjördísar Geirs, Mána, Hljómsveit Stefáns P, Hljómsveit Gissurar Geirs og Loga en hann söng einmitt þekktasta lag síðast töldu sveitarinnar, Minning um mann. Ólafur hefur ennfremur leikið inn á tugi hljómplatna.

Saxófónleikarinn Stefán S. Stefánsson er sextíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Stefán sem einnig er tónskáld, útsetjari og upptökumaður hefur komið við sögu ótal þekktra og óþekktra sveita s.s. Galdrakarla, Mezzoforte, Birds, Stórsveitar Reykjavíkur, Hljómsveitar Guðmundar Steingrímssonar, Gamma, Sextetts Einars Þ. Einarssonar, Tívolí og Ljósanna í bænum svo nokkrar eru nefndar en einnig hefur hann komið við sögu á tugum ef ekki hundruðum platna annarra listamanna. Þá hefur Stefán sent frá sér sólóplötur.

(Magnús) Finnur Jóhannsson söngvari og gítarleikari er sextíu og sex ára í dag en hann var mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi á áttunda áratugnum og fram á þann níunda með hljómsveitum á borð við Stofnþeli, Eik, Berlín, Frökkum, Cabaret og Tíbrá. Síðar söng hann með hljómsveitinni Fimm á Richter. Finnur hefur aukinheldur komið við sögu á fjölda platna.

Ágústa Eva Erlendsdóttir

Stefán Már Magnússon gítarleikari (og sonur Magnúsar Eiríkssonar) á stórafmæli en hann er fimmtugur á þessum degi. Stefán sem reyndar spilar á fjöldann allan af hljóðfærum hefur leikið með ýmsum þekktum og óþekktum hljómsveitum s.s. Fox voices, Geirfuglunum, Reiðmönnum vindanna, Tristian, Íslenskir tónar, Miðnesi, Neol Einsteiger og Tussul en hann hefur jafnframt leikið inn á ógrynni hljómplatna síðustu áratugina.

Birgir Gunnlaugsson er sextíu og fimm ára gamall í dag. Hann hefur komið að íslenskri tónlist á margvíslegan hátt, s.s. sem hljómsveitarstjóri en hann starfrækti Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar um árabil en hann hafði einnig áður verið í sveitum eins og Tríó ´72, Bítlunum og Fjörkum, þá var hann maðurinn á bak við Rokklingana og stóð þá einnig í hljómplötuútgáfu og tónleika- og viðburðahaldi samhliða því.

Tónskáldið Gunnar Reynir Sveinsson hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2008. Gunnar Reynir sem einnig var víbrafónleikari, var fæddur 1933 og lék með ýmsum danshljómsveitum á árum áður, hann sneri sér síðan í auknum mæli að tónsmíðum og tónlistarkennslu, og hefur oft verið kallaður upphafsmaður kammerdjasssins á Íslandi. Gunnar Reynir nam tónsmíðar hér heima og í Hollandi en út hafa komið nokkrar plötur þar sem tónlistarmenn hafa leikið lög hans.

Vissir þú að Jóhannes Ágústsson, sem lengi var kenndur við 12 tóna, var trommuleikari í hljómsveitinni Hana?