Sigrún Jóhannesdóttir [2] (1936-)

Sigrún Jóhannesdóttir

Sigrún Jóhannesdóttir var um tíma ásamt eiginmanni sínum áberandi í starfi Vísnavina og Eddukórsins, og voru þau hjónin jafnframt heilmikið að koma fram með tónlistaratriði á samkomum á vinstri vængnum, þau gáfu svo loks út plötu með úrvali upptaka úr fórum Ríkisútvarpsins en þau voru þá komin á áttræðis aldur.

Sigrún (f. 1936) kemur upphaflega úr uppsveitum Árnessýslu en hefur búið mestan part ævi sinnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún er gift Gunnari Guttormssyni og voru þau hjón lengi vel áberandi í starfi vinstri arms stjórnmálanna, komu þar mikið fram með tónlistaratriði – söng og gítarslátt en síðar meir var Sigrún meira í að leika undir á gítar undir söng Gunnars. Þau voru jafnframt nokkuð áberandi í starfi Vísnavina, komu oftsinnis fram á tónleikum á vegum þess félagsskapar og m.a. á norrænni vísnahátíð, Visland ´85 sem haldin var á Laugarvatni og í kjölfarið kom út lag með þeim hjónum á kassettu sem gefin var út í tengsum við hátíðina.

Þau hjónin sungu í fjölmörgum kórum, voru meðlimir í Söngfélagi verkalýðssamtakanna í Reykjavík (SVÍR) (síðar Alþýðukórnum), Eddukórnum sem naut töluverðra vinsælda á áttunda áratugnum og gaf út töluvert af efni, Kór Íslensku óperunnar og líklega fleiri kórum.

Sænska vísnaskáldið Carl Bellman var þeim hjónum hugleikinn og þau fluttu oft lög hans á tónleikum en einnig í Ríkisútvarpinu og árið 2012 kom að því að þau gáfu út plötuna Söngvísur, sem að mestu hafði að geyma úrval upptaka úr fórum Ríkisútvarpsins frá árunum 1978-85 og var Bellman áberandi í því lagavali. Þá hafði Sigrún einnig leikið á gítar á plötunni Eins og gengur: söngvísur eftir Sigurð Þórarinsson (1982) en það efni var endurútgefið 2013 á veglegri útgáfu í tilefni af aldarafmæli Sigurðar undir titlinum Kúnstir náttúrunnar: söngvísur og svipmyndir – aldarslagur.

Efni á plötum