Eddukórinn [1] (1970-76)

Eddukórinn 19731

Eddukórinn 1973

Eddukórinn skipar stærri sess í jólahaldi Íslendinga en flestan grunar, en þar ber hæst flutningur þeirra á laginu Á jólunum er gleði og gaman, sem heyrist víða fyrir hverja jólahátíð.

Eddukórinn var í raun stór sönghópur eða tvöfaldur kvartett fremur en kór í þrengstu merkingu þess orðs. Hann var stofnaður í byrjun árs 1970 að frumkvæði hjónanna Friðriks Guðna Þórleifssonar (Busabandið, Þrír háir tónar o.fl.) og Sigríðar Sigurðardóttur en þau urðu síðar kunnust fyrir framlag sitt til rangæsks tónlistarlífs.

Aðrir meðlimir hópsins voru í upphafi Sigrún Jóhannesdóttir, Gunnar Guttormsson, Sigrún Andrésdóttir, Sigurður Þórðarson, Guðrún Ásbjörnsdóttir, Ásta Valdimarsdóttir og Örn Gústafsson, aldrei sungu þau nema átta í senn þótt þau væru níu í upphafi. Þau Örn og Ásta heltust fljótlega úr lestinni og kom Arnmundur Sævar Backman inn í þeirra stað. Þeir Arnmundur, Örn og Friðrik Guðni höfðu reyndar starfað saman í söngtríóinu Þrír háir tónar og voru því nokkuð þekktir á söngsviðinu.

Kórinn var nafnlaus fyrsta árið en þegar að því kom að gefa út plötu hjá SG-hljómplötum fyrir jólin 1971, fékk hópurinn nafnið Eddukórinn. Platan hlaut titilinn Jól yfir borg og bæ og hafði að geyma jólalög úr ýmsum áttum en flesta textana átti Friðrik Guðni. Jólaplatan hlaut strax góðar viðtökur og seldist prýðilega, enda var hún endurútgefin þremur árum síðar undir nafninu Bráðum koma jólin, en þá með annars konar plötuumslagi. Æ síðan hafa lög af plötunni fengið að hljóma í útvarpi fyrir jólin og reyndar var fastur liður að söngur kórsins ómaði í jóladagskrá útvarps og sjónvarps næstu árin.

Eddukórinn 1974

Eddukórinn 1974

Eddukórinn hélt áfram starfsemi sinni og sérhæfði sig einkum í jóla- og þjóðlögum en þjóðhátíðarárið 1974 var ný plata gefin út með kórnum, Íslensk þjóðlög / Icelandic folksongs, en útgáfa hennar var styrkt af Menningarsjóði í tilefni af ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar. Upptökurnar fóru fram í Danmörku við bestu skilyrði og seldist fljótlega upp en var síðan endurútgefin 1991, hún hafði þá ekki verið fáanleg í mörg ár. Á plötunni sungu áttmenningarnir án undirleiks. Óútgefið efni með Eddukórnum var svo gefið út árið 2012 undir titlinum Ilmur úr grasi: 18 lög frá ýmsum löndum, upplýsingar eru þó af skornum skammti um þá útgáfu.

Eddukórinn starfaði til ársins 1976 er hann leystist upp en Friðrik Guðni og Sigríður höfðu þá flutt austur á Hvolsvöll til tónlistarkennslu fyrir nokkru og þannig var erfitt að halda uppi söngstarfinu með góðum hætti.

Fjölmörg lög með kórnum, einkum jólalög, hafa komið út á safnplötum í gegnum tíðina og má þar fyrst nefna Amma raular í rökkrinu (1975) en þau lög komu aldrei út á plötum Eddukórsins, einnig má nefna Helg eru jól: fjórtán jólalög (1974), Hvít jól (1985), Icelandic folk favourites (1999), Jólaljós (1982), Jólasnjór (1979) og Jólasnær (1991).

Efni á plötum