Friðarsinnissýki

Friðarsinnissýki
(Lag og texti: Sverrir Stormsker)

Af friði og ró þú fullar hendur hefur,
þér fallast þær, ó byrðin er of þung.
Þú veist að kjarnabomban bíður sem Mjallhvít
eftir blautum kossi á munn;
að jörðin kann að verða‘ aftur flöt sem forðum
og við fletjuð oní grundina.

Og bomban leggur hugsjón þér í hendur,
þú hrópar hátt: Við viljum frið á jörð.
Af alefli í honum þú syngur um sáttir
sem þú sérð í hillingu.
Að leggja í sölurnar lífið fyrir málstað
gefur lífinu fyllingu.

Ef að einhver reitir þig til reiði,
þú reitir hár hans, gefur honum spark.
Því þó þú berir umhyggju fyrir öllum,
þá gildir það ekki um næsta mann.
Eins og aðrir þú elskar heiminn heitt,
en ekki helvítis náungann.

Þú færð þér nesti og nýja skó og gengur
þér til húðar í þágu friðar heims.
Þú berst gegn ófriði og fyrir friði,
en átt af friði meir en nóg.
Þú hefur ekki frið fyrir friði,
þú finnur í óró ró.

[af plötunni Sverrir Stormsker – Stormskers guðspjöll]