Skólakór Bændaskólans á Hólum (1920-84)

Kór bændaskólans á fimmta áratugnum

Við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal var lengi vel fjörugt sönglíf enda var söngkennsla hluti af náminu hér fyrrum, þar var stundum skólakór starfandi.

Bændaskólinn á Hólum í Hjaltadal var stofnaður árið 1882 en litlar upplýsingar er að finna um hvernig söngkennslu og kóramenningu var háttað fyrstu áratugina, þó var þar um tíma að minnsta kosti starfandi söngfélag. Árið 1920 kom Friðbjörn Traustason til skólans sem söngkennari og gegndi hann því starfi allt til ársins 1960 samhliða organistastarfi við Hóladómkirkju að hluta, eða í um fjóra áratugi. Á meðan Friðbjörn annaðist söngkennslu við skólann voru stundum starfandi skólakórar við skólann einkum framan af og herma heimildir að allt að helmingur skólanema hefðu verið í kórnum, litlar upplýsingar er þó að finna um hvenær nákvæmlega slíkir kórar voru starfandi en þó liggur fyrir að kór var þar veturinn 1943-44.

Eftir að Friðbjörn lét af störfum við bændaskólann 1960 virðist sem söng- og kóralíf hafi legið niðri en upplýsingar þ.a.l. má gjarnan miðla til Glatkistunnar, og engar heimildir er að finna um skólakór fyrr en veturinn 1983-84 þegar Anna Einarsdóttir prestfrú á Hólum stjórnaði kór við skólann.

Ekkert liggur fyrir um starfandi skólakóra við Bændaskólann á Hólum eftir 1984 en frá árinu 2003 hefur skólinn verið á háskólastigi og heitir nú Háskólinn á Hólum.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um söng- og kórstarf við Hóla í Hjaltadal.