Skólakór Bændaskólans á Hvanneyri (1935-91)

Skólakór Bændaskólans á Hvanneyri veturinn 1973-74

Sönglíf var í miklum blóma lengi vel við Bændaskólann á Hvanneyri en þar hefur verið skólasetur allt frá árinu 1889 þegar búnaðarskóli var þar settur á stofn, 1907 varð skólinn að Bændaskólanum á Hvanneyri og í dag gengur hann undir nafninu Landbúnaðarháskóli Íslands.

Elstu heimildir um skólakór á Hvanneyri eru frá vetrinum 1935-36 en þá sungu nemendur skólans á skemmtun undir stjórn þáverandi skólastjóra, Halldórs Vilhjálmssonar. Ekki liggur fyrir hvort sá kór hafði verið lengi við lýði eða hvort skipulagðar kóræfingar voru að baki þess söngs.

Næstu áratugina var sönglífið afar blómlegt undir stjórn söngkennara skólans, Ingimar Guðmundsson kenndi söng á árunum 1937-40, Hans Jörgensen 1941-43, Halldór Sigurðsson 1943-46 og séra Guðmundur Sveinsson á árunum 1946-48. Kórar störfuðu undir stjórn framangreindra söngkennara en kórastarf lagðist af veturinn 1948-49 þegar enginn söngkennari fékkst til starfans, það stóð þó ekki lengi yfir því næstu tvo vetur þar á eftir annaðist Svavar Björnsson, einn af eldri nemendum skólans söngkennslu og kórstjórn, sem sýnir að söngurinn skipaði mikilvægan sess í félagslífi nemenda á Hvanneyri. Guðmundur Sveinsson kom aftur til starfa veturinn 1951-52 en eftir það virðist ekkert sönglíf hafa verið við skólann um nokkurra ára skeið, það þarf þó ekki að vera rétt.

Fáar heimildir finnast um skólakóra næstu ára, Ólafur Guðmundsson kom til starfa um miðjan sjötta áratuginn sem söngkennari og sem organisti og kórstjórnandi kirkjukórs Hvanneyrarkirkju, og mun hann hafa þjálfað upp kóra og minni sönghópa við skólann og stjórnað þeim að einhverju leyti allt til 1985. Þannig liggur fyrir að kórar voru þar starfandi 1973-74 og 1979-82 og er hér giskað á að Ólafur hafi stjórnað þeim, upplýsingar vantar þó um hvort kórastarfið hafi verið samfelldara sen hér segir.

Eftir að Ólafur lét af störfum 1985 vantar nokkuð upp á upplýsingar um kóra við bændaskólann, vitað er að veturinn 1990-91 voru bæði blandaður kór og kvennakór starfandi innan skólans en engar upplýsingar er að finna um stjórnendur þeirra. Jafnframt vantar allar upplýsingar um starfandi skólakóra við Hvanneyrarskóla eftir 1991 og er hér með óskað eftir upplýsingum um þá.