Skólahljómsveitir Menntaskólans við Hamrahlíð (1969-)

Fáar heimildir eru um skólahljómsveitir innan Menntaskólans við Hamrahlíð en þeim mun fleiri um hljómsveitir sem hafa starfað innan hans enda hefur skólinn iðulega haft á sér „lista“-stimpil allt frá upphafi. Þá er skólinn auðvitað þekktur fyrir söngkór sinn.

Menntaskólinn við Hamrahlíð var stofnaður árið 1966 og árið 1969 var þar starfandi einhvers konar skólahljómsveit sem litlar upplýsingar finnast reyndar um en Björn Leifsson mun hafa verið klarinettuleikari hennar. Upplýsingar um slíkar skólahljómsveitir eru af skornum skammti en sveitir hafa verið þar starfandi til að mynda í kringum leiksýningar sem settar hafa verið á svið í skólanum. Óskað er eftir frekari upplýsingum um eiginlegar skólahljómsveitir MH.

Ungt fólk með listræna hæfileika hefur alltaf sótt í skólann og því hefur verið þar mikið af tónlistarfólki og mikil gerjun átti sér stað t.d. á áttunda áratugnum með þekktar sveitir eins og Spilverk þjóðanna og Diabolus in musica í fararbroddi, síðar urðu þar til sveitir eins og Mosi frændi, Jói á hakanum, Fíaskó, Sirkus Babalú, Dýrlingarnir, Gabríellurnar og Grasrex, Moonboots, Pjetur og úlfarnir, Motherfuckers in the house, Hjaltalín og Sprengjuhöllin svo nokkur þekkt nöfn séu nefnd í bland við minna þekkt. Stuðmenn urðu vissulega til í skólanum einnig en þá aðeins sem grínuppákoma á árshátíð.

Gróskan var mikil og fjölbreytt og fjölmargar sveitir fengu að njóta sín á safnplötunni Tún: tónleikaupptökur úr Norðurkjallara, sem kom út árið 1997 en staðurinn hefur alltaf verið vinsæll til tónleikahalds og þar hafa fjölmargar hljómsveitir og tónlistarfólk komið fram á tónleikum.

Efni á plötum