Skólakór Barnaskólans á Eyrarbakka (um 1915)

Kór sem starfræktur var við Barnaskólann á Eyrarbakka er að öllum líkindum fyrsti skólakór og um leið fyrsti barnakór sem starfaði hér á landi. Barnaskólinn á Eyrarbakka hafði þá starfað allt frá árinu 1852.

Þegar Helgi Hallgrímsson (faðir dr. Hallgríms Helgasonar tónskálds) gerðist kennari við Barnaskólann á Eyrarbakka haustið 1913 setti hann á fót kór nemenda við skólann, ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær kórinn var stofnaður eða hversu lengi hann starfaði en Helgi kenndi við skólann á árunum 1913-17. Hér er gert ráð fyrir að kórinn hafi verið skipaður börnum á aldrinum 8-12 ára.