Skólakór Álftamýrarskóla (1968-)

Stúlkur úr Álftamýrarskóla 1968

Skólakórar hafa lengi verið starfandi við Álftamýrarskóla og nokkuð samfleytt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, eitthvað dró úr kórstarfi innan skólans eftir það en í dag er þar þó starfandi kór.

Ekki liggur fyrir víst hvenær fyrst starfaði kór innan Álftamýrarskóla en árið 1968 stjórnaði Reynir Sigurðsson slíkum skólakór sem m.a. kom fram í útvarpinu og söng við undirleik hljómsveitar. Sama haust söng úrval stúlkna úr þeim kór inn á jólaplötu Ómars Ragnarssonar, Gáttaþefur á jólaskemmtun með börnunum og þar var kórinn reyndar býsna áberandi – söng þar m.a.s. einn lagið Litla jólabarn sem margoft hefur komið út á safnplötum síðan og er reyndar langlífasta og langvinsælasta útgáfa þess lags. Þremur árum síðar (1971) söng kórinn inn á aðra slíka plötu með Ómari en sú bar titilinn Gáttaþefur í glöðum hóp, báðar þessar jólaplötur komu út á vegum SG-hljómplatna og hafa fyrir löngu síðan skipað sér í flokk sígildra íslenskra jólaplatna.

Litlar upplýsingar er að finna um tilurð kórsins næstu árin, fyrir liggur að hann söng þjóðlög í útvarpinu árið 1972 (væntanlega undir stjórn Reynis) og að hann var starfandi 1977 og 1981 en árið 1983 var Reynir Jónasson tónmenntakennari Álftamýrarskóla orðinn stjórnandi kórsins og hafði e.t.v. þá verið um nokkurra ára skeið, jafnvel frá 1973.

Árið 1985 var Hannes Baldursson stjórnandi Skólakórs Álftamýrarskóla og gegndi því hlutverki til 1987 að minnsta kosti en engar upplýsingar er að finna um kórastarf við skólann eftir það fyrr en nokkuð var liðið á tuttugustu og fyrstu öldina (hvenær liggur ekki nákvæmlega fyrir) en þá starfaði kór undir stjórn Helgu Margrétar Marzellíusardóttur og 2019 undir stjórn Þórdísar Sævarsdóttur. Sá kór virðist hafa verið lagður niður því haustið 2021 tók nýr kór til starfa við skólann undir stjórn Guðrúnar Birnu Eiríksdóttur og Marie Paulette Helen Huby, sá kór er hluti af frístundarstarfi skólans og ætlaður yngstu nemendum hans.