Smávinir [1] (1944)

Smávinir frá Vestmannaeyjum

Barnakórinn Smávinir starfaði af því er virðist í nokkra mánuði lýðveldisárið 1944, í Vestmannaeyjum.

Smávinir sem í upphafi voru skipaðir ríflega fimmtíu börnum, mest stúlkum, hóf æfingar í byrjun mars undir stjórn Helga Þorlákssonar organista og aðeins fáeinum vikum síðar hafði hann sungið í nokkur skipti opinberlega í Eyjum, þar á meðal um páskana, við skólaslit gagnfræðaskólans og á sjómannadagsskemmtun við ágætan orðstír. Hafi það ekki verið nóg þá var um sumarið farið í söngferðalag upp á meginlandið, þar sem siglt var frá Vestmannaeyjum til Stokkseyrar og farið þaðan upp í Akranes og Borgarnes þar sem haldnir voru tónleikar áður en hópurinn hélt til Reykjavíkur þar sem kórinn hélt tónleika í Gamla bíói og Tjarnarbíói, og að lokum til Hafnarfjarðar áður en haldið var til Vestmannaeyja á nýjan leik. Kórinn taldi á milli sjötíu og áttatíu kórmeðlimi í ferðinni og er saga hans í raun ótrúleg þó ekki nema fyrir það að hann hafði þá aðeins starfað í um fimm mánuði. Í Reykjavíkurferðinni bauðst kórnum jafnframt að syngja í Útvarpssal.

Eftir tónleikaferðalagið virðist sem Smávinir hafi fljótlega lagt upp laupana, að minnsta kosti finnast engar heimildir um starfsemi kórsins eftir það.