Spiritus [1] (1996-97)

Um miðjan tíunda áratuginn var starfrækt hljómsveit á Stöðvarfirði undir nafninu Spiritus, sveitin starfaði um eins og hálfs árs skeið árið 1996 og 97.

Spiritus var stofnuð vorið 1996 og voru meðlimir sveitarinnar þeir Hilmar Garðarsson söngvari, Svanur Vilbergsson gítarleikari, Guðjón Viðarsson bassaleikari, Tom Björnsson trommuleikari og svo Pálmi Fannar Smárason rythmagítarleikari sem starfaði með henni í nokkra mánuði.

Spiritus lék töluvert á unglingadansleikjum á Austurlandi og vakti iðulega athygli fyrir góða spilamennsku og líflega sviðsframkomu, söngvari sveitarinnar mun t.a.m. einhverju sinni hafa hent af sér síðum frakka sem hann klæddist á sviði og var þá í engu innan undir nema fílabrók. Sveitin hljóðritaði eitt lag í hljóðverinu Fellahelli haustið 1996 en það hefur ekki komið út.

Hilmar og Svanur hafa helgað sig tónlistinni í seinni tíð og hafa báðir sent frá sér efni á plötum.