Spíritus (1992-94)

Spíritus frá Sandgerði

Hljómsveitin Spíritus starfaði í Sandgerði á fyrri hluta tíunda áratugarins og lék nokkuð á dansleikjum á Suðurnesjunum en einnig á höfuðborgarsvæðinu.

Spíritus var stofnuð síðla árs 1992 upp úr hljómsveitinni Tengdó en meðlimir sveitarinnar voru Rúnar Þór Guðmundsson söngvari, Ólafur Þór Ólafsson gítarleikari, Heiðmundur Clausen bassaleikari, Kristinn Einarsson hljómborðsleikari og trommuleikari sem nafn vantar á en Helgi Víkingsson tók sæti hans fljótlega.

Sveitin spilaði sem fyrr segir nokkuð á dansleikjum og haustið 1993 sendi sveitin frá sér lag á safnplötunni Lagasafnið 4 og naut þar fulltingis Pálma J. Sigurhjartarsonar hljómborðsleikara. Þeir félagar léku eitthvað opinberlega fram eftir árinu 1994 en hættu líklega störfum um mitt árið.