Split Promotions [umboðsskrifstofa] (1987-89)

Tony Sandy og Bobby Harrison ásamt Meat loaf

Um tveggja ára skeið var starfrækt hér á landi umboðsfyrirtæki undir nafninu Split Promotions en það flutti inn fjöldann allan af þekktu erlendu tónlistarfólki, fyrirtækið varð þó ekki langlíft og tap var á flestum þeim tónleikum sem það stóð fyrir og mætti e.t.v. kenna offramboði um að einhverju leyti.

Það voru Bretarnir Bobby Harrison og Tony Sandy sem stofnuðu fyrirtækið Split Pormotions (einnig nefnt Splitt hf.) snemma árs 1987 þegar þeir stóðu fyrir innflutningi á sænsku hljómsveitinni Europe sem þá hafði nýverið slegið í gegn með lögum eins og Final countdown og Carrie. Tónleikarnir sem haldnir voru í Laugardalshöllinni þóttust takast vel og í kjölfarið fluttu þeir félagar í félagi við Róbert Árna Hreiðarsson inn fleiri þekktar hljómsveitir og tónlistarmenn eins og A-ha, Meat loaf, Cock Robin, Bonnie Tyler, Boy George og Kiss á næstu tveimur árum, sem ýmist spiluðu í Laugardalshöllinni eða Reiðhöllinni í Víðidal. Það er skemmst frá því að segja að tap varð á öllum þeim tónleikum og má ætla að þeir félagar hafi færst of mikið í fang, þar má kenna um reynsluleysi auk þess sem framboðið var í raun of mikið og því enginn almennilegur grundvöllur fyrir svo öru tónleikahaldi. Um svipað leyti komu einnig þekktir tónlistarmenn hingað til lands á vegum annarra aðila s.s. Status Que, Whether girls og Shark taboo svo aðeins fáein dæmi séu nefnd og því þurftu tónleikagestir að velja og hafna úr því mikla úrvali sem í boði var.

Það fór því svo að þeir Split-félagar splittuðu upp fyrirtækinu árið 1989 en þá höfðu þeir m.a. haft uppi hugmyndir um að flytja inn tónlistarmenn eins og Elton John, Billy Idol, Iron Maiden, Billy Joel, U2 og Stevie Wonder svo nokkur dæmi séu nefnd.