Afmælisbörn 5. júní 2022

Einar Valur Scheving

Í dag eru afmælisbörnin átta talsins:

Fyrstan skal telja Einar Val Scheving trommuleikara og tónskáld en hann er fjörutíu og níu ára. Einar sem hefur leikið á ógrynni platna annarra tónlistarmanna, hefur einnig starfað með hljómsveitum eins og Stórsveit Reykjavíkur, Atlantshafsbandalaginu, Icelandic All Star Jazzband og Gleðigjöfunum auk margra annarra. Hann hefur gefið út þrjár sólóplötur.

Hallbjörn Hjartarson kántrísöngvari er áttatíu og sjö ára í dag, hann gaf út á sínum tíma ellefu plötur sem flestar höfðu að geyma kántrítónlist en nokkur laga hans náðu vinsældum, s.s. Lukku Láki, Kántrýbær, Hundurinn Húgó og Hann er vinsæll og veit af því. Hann starfrækti einnig um árabil veitingastaðinn og útvarpsstöðina Kántrýbæ.

Haraldur Sigurðsson (Halli) söngvari á stórafmæli, hann er áttræður en hann er auðvitað kunnastur fyrir samstarf sitt við bróður sinn Ladda, og sem einn meðlima HLH flokksins. Margir muna eftir honum á plötunni Haraldur í Skrýpalandi en skrýplarnir gengu síðar undir nafninu strumpar. Halli var einnig í fjölmörgum hljómsveitum á árum áður og þar má telja Halli and the hobos, Faxar, Capella, Drekar, Trixon og Limbó.

Árni (Rafn Benediktsson) Elfar (1928-2009) átti einnig afmæli þennan dag en hann var afar fjölhæfur listamaður. Árni var sem tónlistarmaður fyrst og fremst píanóleikari en færri vita að hann lék á básúnu í Sinfóníuhljómsveit Íslands í um þrjá áratugi. Hann starfrækti eigin hljómsveitir en lék einnig með sveitum eins og Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar, GÁG tríóinu og KK sextett svo einhverjar séu nefndar. Árni var einnig kunnur teiknari en hann vann einnig úr leir og skar út tré.

Árni Elfar

Gunnar Hrafnsson bassaleikari er sextíu og fimm ára gamall í dag. Gunnar sem nam bassaleik í Bandaríkjunum er einna þekktastur í seinni tíð fyrir djassspilamennsku og félags- og réttindamálabaráttu tónlistarmanna en hann lék hér á árum áður með fjölda hljómsveita og má þar nefna sveitir eins og Melchior, Járnsíðu, Pnin, Jazzmenn, Sextettinn og Evusyni og svo auðvitað ógrynni djasskvartetta, tríóa og hvers kyns djasstengdar sveitir.

Brynleifur Hallsson (1948-2020) gítarleikari frá Akureyri átti afmæli á þessum degi en hann lék með mörgum þekktum og óþekktum hljómsveitum norðan heiða, þeirra á meðal má nefna Áningu, Comet, Danfélaga/Félaga, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar, Hljómsveit Ingimars Eydal, Hunang, Ljósbrá og Hljómsveit Pálma Stefánssonar, Þá starfaði Brynleifur einnig við upptökur, lék á fjölda platna og sendi m.a.s. frá sér tvö lög í eigin nafni á safnplötu fyrir margt löngu.

Friðrik Guðni Þórleifsson hefði einnig átt afmæli í dag en hann lést 1992 aðeins fjörutíu og átta ára gamall. Friðrik Guðni fæddist 1944 og var á unglingsárum sínum í fyrstu útgáfu Dúmbó á Akranesi, á menntaskólaárunum var hann í Busabandinu sem starfaði í MA á Akureyri og síðar í Rímtríóinu sem svo varð að Söngtríóinu Þremur háum tónum. Þá stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni Eddukórinn og stýrði honum í nokkur ár en fluttist þá til Hvolsvallar þar sem hann vann mikið starf sem tónlistarskólastjóri og kórstjórnandi. Friðrik Guðni var ennfremur ljóðskáld og eftir hann liggja fjölmargir þekktir jólatextar.

Að síðustu skal hér telja djasspíanistann Guðmund Ingólfsson (1939-1991) en hann átti líka þennan afmælisdag. Hann kom víða við í sinni sköpun, var lengi í ballhljómsveitum eins og GÓP & Helgu og Haukum en lék einnig með sveitum eins og Blúskompaníinu, Bob Magnússon group, Hljómsveit Jóns Páls Bjarnason og Hljómsveit Gunnars Ormslev, auk auðvitað Tríós Guðmundar Ingólfssonar sem lék svo eftirminnilega á plötunni Gling gló með Björku Guðmundsdóttur. Guðmundur gaf sjálfur út þrjár sólóplötur og var umdeildur m.a. fyrir djassað útgáfu sína af þjóðsöngnum sem heyrðist í kvikmyndinni Okkar á milli.

Vissir þú að í laginu Á kránni sem Mánar gerðu vinsælt hér á árum áður spilaði Gunnar Þórðarson á víbrafón með pípunni sinni?