Guðmundur Ingólfsson [2] (1939-91)

Guðmundur Ingólfsson

Guðmundur Ingólfsson djasspíanisti lést langt um aldur fram snemma á tíunda áratug síðustu aldar en hann hafði þá um árabil verið meðal fremstu djasstónlistarmanna hér á landi, hann hafði tónlist að aðalstarfi í áratugi og fáir léku jafn oft og hann á opinberum vettvangi, ýmist með danshljómsveitum framan af eða með tríóum, kvartettum og sveitum af ýmsu tagi í djassgeiranum. Nokkrar plötur liggja eftir hann og þar á meðal má finna söluhæstu íslensku plötuna frá upphafi.

Guðmundur fæddist í Reykjavík 1939 og fljótlega var ljóst hvert stefndi enda þótti hann með ólíkindum músíkalskt barn, hann var farinn að spila á píanó eftir eyranu fjögurra ára gamall og sex ára farinn að semja tónlist. Foreldrar hans reyndu þrátt fyrir lítil efni að setja hann í tónlistarnám og var hann sex ára gamall farinn að nema hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni píanóleikara, aðrir kennarar hans voru Ásbjörn Stefánsson og svo Vilhelm Lansky-Otto. Þess má geta að Guðmundur missti heyrn alveg á öðru eyra á barnsaldri vegna veikinda og að hluta til á hinu eyranu einnig þannig að hann var heyrnarskertur upp frá því.

Guðmundur hóf að leika opinberlega á skemmtunum strax á barnsaldri til að fjármagna píanónám sitt, hann lék í fyrsta sinn í útvarpi átta ára gamall og þá frumsamin lög sem Sigurður Ólafsson söngvari (og frændi hans) söng við texta móður Guðmundar, Oddfríðar Magnúsdóttur sem samdi fjölda þekktra texta á sínum tíma. Einnig mun Haukur Morthens hafa sungið lög Guðmundar í útvarpinu nokkru síðar. Guðmundur kom jafnframt oft fram á skemmtunum, s.s. í Vetrargarðinum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni, ungur að árum þar sem hann lék ýmist á píanó eða harmonikku en hann þótti einnig afar snjall á síðarnefnda hljóðfærið og lék einnig á það í útvarpsþáttum.

Guðmundur ungur að árum

Um fimmtán ára aldur bauðst Guðmundi að mennta sig í píanóleik í Danmörku og þangað fór hann til náms og lærði hjá Axel Arnfjörð, honum varð ljóst á þessum tíma að hann hefði ekki áhuga á að gerast klassískur píanóleikari enda sagði hann síðar í blaðaviðtali að hann hefði hvorki haft taugar né getu í slíka konsertspilamennsku og urðu einhverjir ósáttir við þá ákvörðun hans, og þegar hann hafði heimsótt djassbúllur Kaupmannahafnar varð ljóst hvert hugur hans stefndi – djassinn heltók hug hans allan og upp frá því varð sú tegund tónlistar númer eitt, tvö og þrjú hjá honum. Í Danmörku lék hann fyrst opinberlega djasstónlist með stórsveit af dönskum herskipum og eitthvað kom hann fram einnig í dönsku sjónvarpi meðan hann dvaldi þar í landi.

Segja má að tónlistarferill Guðmundar hafi hafist fyrir alvöru árið 1955 þegar hann kom heim frá Kaupmannahöfn en frá og með þeim tíma starfaði hann sem atvinnutónlistarmaður og þá mest með danshljómsveitum fyrsta áratuginn. Hann lék þá m.a. í kabarettsýningum en einnig næstu árin með Hljómsveit Reynis Sigurðssonar, Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar sem var mestmegnis í gömlu dönsunum og Hljómsveit Gunnars Ormslev, Guðmundur dvaldi einnig um tíma í Noregi þar sem hann starfaði með hljómsveit sem lék undir hjá söngkonunni Sigrúnu Jónsdóttur en hún hafði flust til Noregs og var þar þekkt söngkona, það var í kringum 1962.

Það var svo um miðjan sjöunda áratuginn sem Guðmundur byrjaði með eigin hljómsveit en Helga Sigþórsdóttir sem þá var orðin nokkuð þekkt söngkona söng með þeirri sveit um tíma, hún var þá gift Guðmundi og þau hjónin áttu eftir að starfa nokkuð saman með hljómsveitum næsta áratuginn s.s. með Haukum, GÓP og Örlögum en síðast talda sveitin fór m.a. í þriggja vikna tónleikaferð til Færeyja, þess má geta að sú sveit lagði nokkra áherslu á tónlistina úr Jesus Christ superstar en það var nokkru áður en söngleikurinn var settur á svið hér á landi.

Um tíma fékk djassinn meira pláss hjá Guðmundi enda var þá um eins konar djassvakningu að ræða í kringum miðjan sjöunda áratuginn, hann kom þá t.d. fram með sveit sem kallaðist Icelandic modern jazzseptet og fleiri sveitum en hann var jafnframt framarlega í félagsstarfi djasstónlistarmanna á þeim tíma og tók þátt í ýmsum jamsessionum. Þegar þessi vakning leið undir lok við lok sjöunda áratugarins tóku blúskvöldin við og þá varð hann einn af þeim sem skipuðu hið goðsagnakennda Blúskompaní (Blues company) sem spilaði víða næstu árin með löngum hléum. Aðrar sveitir sem Guðmundur staldraði við í voru Opus 4, Experiment og Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar en einnig kom hann að annars konar verkefnum, s.s. lék hann með Ríó tríóinu á lokatónleikunum sem sú sveit hélt fyrir fullu Austurbæjarbíói og voru síðan gefnir út á tvöfaldri plötu, þá kom hann einnig að Eyjaliðs-verkefninu sem var til styrktar Vestmannaeyingum á gostímum. Samhliða þessu lék Guðmundur einn síns liðs dinner á veitingahúsum og víðar.

Guðmundur Ingólfsson

Árið 1974 hleypti Guðmundur heimdraganum og fór til Noregs í annað skipti, hann hafði þá skilið við eiginkonu sínu og leitaði eftir öðru umhverfi, þar í landi lék hann bæði dinner og djass (jamm-aði m.a. með Buddy Rich og fleirum) og um hálfs árs skeið starfaði hann með júgóslavnesku rokksveitinni Brudocks sem spilaði rokk í þyngri kantinum (á borð við Uriah heep og Deep purple), Guðmundur lék á Hammond orgel í þeirri sveit sem fór víða um norðanverðan Noreg í tónleikaför.

Guðmundur starfaði í Noregi um tíma, kom reyndar heim í stutt frí og lék þá með Celsius en þegar hann var alkominn heim til Íslands árið 1977 varð spilamennskan í fastari skorðum, djassinn tók að mestu yfir enda hafði hann þá fastmótað sér stíl sem hann er þekktastur fyrir og hann lék mestmegnis eftir það með djasssveitum af ýmsum stærðum og gerðum, og margar þeirra voru í hans eigin nafni s.s. Tríó Guðmundar Ingólfssonar. Heilmikil djassvitundarvakning hafði kviknað með heimkomu Guðmundar og segja má að hann hafi alið upp heila kynslóð ungra djasstónlistarmanna ásamt trommuleikaranum og nafna sínum Guðmundi Steingrímssyni en þeir tveir voru fremstir í þeirri vakningu næstu árin en félagsskapurinn Jazzvakning hafði einmitt verið stofnaður um miðjan áttunda áratuginn. Tónlistarmenn eins og Björn Thoroddsen gítarleikari og bassaleikararnir Þórður Högnason og Tómas R. Einarsson hlutu eldskírn sína í djasstónlistinni með þeim félögum og miklu fleiri mætti nefna í þeim hópi. Þessi hópur lék mikið í Félagsstofnun stúdenta, Stúdentakjallaranum og Djúpinu, og síðar einnig á Púlsinum við Vitastíg.

Guðmundur var ekki alveg hættur að starfa í annars konar hljómsveitum þótt það væri í mikla minna mæli en áður, hann lék t.d. með hljómsveitum eins og Kvartett Reynis Sigurðssonar, S.O.S., Járnsíðu og Nýja kompaníinu en einnig var Blúskompaníið endurreist. Hann hóf einnig að spila meira sem session leikari á þessum tíma og á næstu árum, hann lék t.d. með Mannakornum, Friðryk og Sjálfsmorðssveit Megasar en einnig inn á plötur sem session leikari og eru hér nokkrar þekktar nefndar s.s. plötur Bjarkar Guðmundsdóttur (11 ára), Viðars Alfreðssonar, Gísla Helgasonar, Örvars Kristjánssonar, Mannakorna, Bergþóru Árnadóttur, Hálfs í hvoru, Björns Thoroddsen, Ingunnar Gylfadóttur, Megasar og margar fleiri, mörg þessara verkefna voru í samstarfi við Pálma Gunnarsson en þeir höfðu einnig starfað mikið saman á fyrri hluta áttunda áratugarins. Pálmi segir frá því t.d. í bæklingi safnplötu sinnar Séð og heyrt, frá því þegar þeir Magnús Eiríksson fengu Guðmund til að leika inn á plötu Mannakorna, Samferða sem kom út 1990 – frásögnin hefst þar sem Pálmi hringir í Guðmund: “Auðvitað verður að vera nikka á disknum ef það á að vera eitthvað vit í honum” röddin var dálítið rám. “Komdu við í mjólkurbúðinni, pikkaðu upp sixpack og náðu svo í mig”. Ég renndi við í mjólkurbúðinni og keyrði niður í miðbæ. Gekk upp á aðra hæð í steingráu húsi og bankaði. “Komdu inn ég er nakinn”. Ég gekk inn í reykmettað herbergi vinar míns sem sat í makindum fullklæddur þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu og horfði á golf í sjónvarpinu. Tveimur hringjum og nokkrum mjólkurdósum síðar vorum við á leið í svitaholuna við Súðarvog, öðru nafni Grjótnámuna, þar sem verið var að leggja síðustu hönd á plötuna Samferða. Lítið annað eftir en að spila nikku á Nillabar og Silfustjörnuna. Maggi Eiríks og Óskar Páll upptökustjóri voru mættir í stúdíóið og allt var til reiðu. Eftir kaffibolla og útí var nikkan tekin upp og Óskar Páll spyr Guðmund hvort hann vilji ekki heyra lögin. Ekki telur Guðmundur neina þörf á því, hann muni bara hlusta inni, hitt sé tímaeyðsla. Guðmundur kemur sér fyrir á háum stól með nikkuna og Óskar Páll rúllar Silfurstjörnunni. Nokkrum töktum síðar stöðvar Guðmundur hann og segist vilja spila; hann hafi heyrt nóg. Upptakan er sett af stað og við verðum vitni að galdri. Ein taka til enda og engu hægt að bæta við eða breyta. Nikkuspil frá sálinni. Það sama var upp á tengingnum í Nillabar og nú bætt um betur, því Guðmundur syngur blúsinn og ég fæ að vera með. Hálftímagigg og málið dautt.

Við píanóið

Þess má einnig geta að Guðmundur lék bæði á píanó og slagverk á fyrstu plötu Bubba Morthens, Ísbjarnarblús, og lék síðan á fleiri plötum Bubba sem mat hann alla tíð mikils og samdi síðan lag til minningar um hann, Þínir löngu grönnu fingur, sem varð upphafslagið á plötunni Von, sem kom út ári eftir andlát Guðmundar.

Þegar hinn íslensk-ættaði bassaleikari Bob Magnusson kom hingað til lands til tónleikahalds í tilefni af fimm ára afmæli Jazzvakningar haustið 1980, var sett saman sveit, Bob Magnusson group sem lék á þrennum tónleikum með bassaleikaranum á Hótel Sögu, Guðmundur var einn þeirra sem fenginn var til að leika með honum og afraksturinn var hljóðritaður og gefinn út ári síðar undir nafninu Jazzvaka en sú plata hlaut fádæma góða viðtökur. Þarna var Guðmundur farinn að njóta viðurkenningar og um það leyti hlaut hann t.d. listmannalaun í fyrsta sinn.

Hugmyndir Guðmundar um að djassa upp íslensk þjóðlög varð einnig að veruleika og þegar hann sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu árið 1982 mátti heyra fyrstu tilraunir hans í þá áttina þótt eitthvað hefði hann þá verið farinn að leika slíkar útsetningar á djasstónleikum, slíkar útsetningar Gunnars Reynis Sveinssonar höfðu einnig heyrst á Jazzvöku-plötunni. Platan sem kom út á vegum SG-útgáfunnar hlaut nafnið Nafnakall sem þótti ágætlega við hæfi því nafni hans Steingrímsson var í aðalhlutverki með honum á plötunni. Hún hafði verið tekin upp í Glóru í Hraungerðishreppi hjá Ólafi (Labba) Þórarinssyni og fékk góðar viðtökur gagnrýnenda, góða dóma í Morgunblaðinu og Helgarpóstinum og frábæra í Poppbók Jens Guðmundssonar og Þjóðviljanum.

Um þetta sama leyti (1982) kom síðan út á plötu tónlistin úr kvikmyndinni Okkar á milli í hita og þunga dagsins í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar, á henni var að finna m.a. tvær instrumental útgáfur af þjóðsöng Íslendinga, Lofsöng Sveinbjörns Sveinbjörnsson. Annars vegar var um að ræða útgáfu í flutningi Þursaflokksins þar sem synthastrengir voru í aðalhlutverki en að öðru leyti var hún hefðbundin, hins vegar djössuð píanó-útgáfa Guðmundar sem varð mjög umdeild því ekki voru allir á eitt sáttir um meðferð hans á þjóðsöngnum og hlutust af nokkur blaðaskrif vegna málsins. Aðrir urðu jákvæðari í garð útgáfunnar en af einhverjum ástæðum heyrist hún sjaldan leikin, platan sjálf er löngu uppseld og illfáanleg.

Önnur sólóplata Guðmundar kom út árið 1988 og að þessu sinni var það Fálkinn sem gaf út, platan hét Þjóðlegur fróðleikur og eins og titillinn gefur til kynna hafði hún að geyma íslensk þjóðlög í djassstíl en það var í raun tríó Guðmundar sem lék á plötunni, reyndar rétt eins og á hinni fyrri. Hún hafði verið tekin upp í Útvarpshúsinu við Skúlagötu sumarið 1987 og voru þetta síðustu djassupptökurnar sem gerðar voru í því húsi. Platan fékk eins og sú fyrri góðar viðtökur, mjög góða dóma í Þjóðviljanum og ágæta í DV, reyndar sat Guðmundur í fangelsi fyrir umferðarlagabrot um það leyti sem útgáfutónleikararnir voru haldnir en hann fékk undanþágu frá afplánuninni til að leika á tónleikunum, hann kom því og fór á tónleikana í lögreglufylgd. Umferðarlagabrot hans voru tengd áfengislöggjöfinni en Guðmundi þótti sopinn góður, reyndar eins og ráða má af frásögn Pálma Gunnarssonar hér ofar. Þjóðlegur fróðleikur hefur verið endurútgefin að minnsta kosti tvisvar.

Björk og Guðmundur

Guðmundur lék mestmegnis djass á níunda áratugnum en hann kom þó lítillega við sögu á öðrum vettvangi, hann lék í nokkur skipti með Bubba Morthens og einnig Megasi og fleiri tónlistarmönnum en kom einnig fram með Bobby‘s blues band sem Bobby Harrison starfrækti.

Tríó Guðmundar varð á þessum tíma vel þekkt djasstríó skipað þeim nöfnum Ingólfssyni og Steingrímssyni en nokkuð misjafnt var hver skipaði bassaleikarahlutverkið hverju sinni sem og annaðist sönginn, einhvers konar útgáfa sveitarinnar fór til tónleikahalds til Luxemborgar og lék þar í nokkra daga, m.a. í útvarpi. Þekktust útgáfa tríósins er án efa með þau Þórð Högnason bassaleikara og Björku Guðmundsdóttur söngkonu innanborðs en sú sveit hljóðritaði nokkur gömul dægurlög undir titlinum Gling gló og gaf út árið 1990. Sú plata hefur selst jafnt og þétt alla tíð og hefur verið endurútgefin í nokkur skipti, m.a. á tvöfaldri vínylplötu, hún varð fyrsta djassplatan til að fara í gullsölu og hefur selst í á þriðja hundrað þúsunda eintaka.

Um það leyti sem Gling gló platan sló í gegn hafði Guðmundur veikst af krabbameini, hann slakaði lítt á í spilamennskunni þrátt fyrir veikindin og kom fram töluvert lengi eftir að hann greindist veikur. Sumarið 1991 kom tríó hans t.a.m. fram á Jazzhátíð Egilsstaða þar sem hann var orðin fárveikur og lést hann fáeinum vikum síðar af veikindum sínum, fimmtíu og tveggja ára gamall.

Djasssamfélagið á Íslandi syrgði Guðmund og reyndar tónlistarsamfélagið allt. Strax um haustið 1991 voru haldnir um hann minningartónleikar og aftur árið 2001 þegar tíu ár voru frá andláti hans, þeir tónleikar voru hljóðritaðir og gefnir út ári síðar undir nafninu Guðmundarvaka en Vernharðar Linnet og Jazzvakning höfðu veg og vanda af þeirri útgáfu. Á þessum tónleikum þar sem einvörðungu var leikið efni efti Guðmund lék m.a. hollenski djasspíanistinn Hans Kwakkernaat en hann þykir hafa ámóta stíl og Guðmundur hafði. Tónleikar hafa reglulega verið haldnir í minningu Guðmundar síðan.

Þremur árum eftir andlát Guðmundar sendi Jazzvakning frá sér tvöfalda plötu sem hét einfaldlega Guðmundur Ingólfsson. Þetta var eins konar minningarplata um hann og hafði að geyma upptökur frá 1977-91, m.a. úr fórum Ríkisútvarpsins sem geymir margar upptökur með honum, þessi plata var endurútgefin 2005. Árið 2001 var síðan Jazzvaka með Bob Magnusson group frá 1981 endurútgefin ásamt Nafnakalli Guðmundar (1982) og plötu Viðars Alfreðssonar – Viðar Alfreðsson spilar og spilar (1980) á tvöfaldri plötu undir titlinum Guðmundarvaka og Viðars, af Jazzvakningu.

Guðmundur var hæfileikaríkur djasstónlistarmaður, lífskúnster sem þótti gott að fá sér í glas en hann hafði einnig hæfileika á öðrum sviðum, hann málaði til dæmis og hélt sína fyrstu málverkasýningu í Djúpinu tveimur árum áður en hann lést, hann hafði einnig verið einnig efnilegur skíðamaður á yngri árum og vann til verðlauna á þeim vettvangi, þá var hann ástríðufullur golfari og lék þá íþrótt við hvert tækifæri en þess má geta að hann færði Golfklúbbi Reykjavíkur píanó að gjöf til að þakka fyrir sig. Tónlist hans er auðvitað að finna á ótal plötum og samstarf hans við fjölda annarra listamanna er að finna á fjölmörgum plötum, hann kom einnig aðeins að verkefnum í leikhúsi og kvikmyndum auk fjölda annarra sem ekki hafa verið upptalin hér.

Efni á plötum