
Sprakk
Hljómsveitin Sprakk var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu um þriggja ára skeið í kringum 1990, reyndar með einhverjum hléum en sveitin lék víða á dansleikjum bæði utan og innan borgarmarkanna.
Sprakk var stofnuð á fyrri hluta árs 1988 og þá voru í henni Hafþór Guðmundsson trommuleikari, Kjartan Valdemarsson hljómborðsleikari, Þórður Guðmundsson bassaleikari, Eðvarð Lárusson gítarleikari og Haukur Hauksson söngvari, en þeir urðu allir þekktir tónlistarmenn síðar. Fyrstu fregnir af sveitinni eru frá vorinu 1988 og þá var hún sögð vera að vinna að plötu sem kæmi út von bráðar en aldrei bólaði þó neitt á henni, sveitin spilaði hins vegar töluvert á dansleikjum um sumarið.
Eftir þessa sumartörn virðist Sprakka hafa verið í pásu í um ár eða þar til um haustið 1989 að hún birtist á nýjan leik en þá með Karl Örvarsson sem söngvara, engar upplýsingar er að finna um hverjir aðrir skipuðu sveitina þá. Sveitin lék eitthvað um veturinn 1989-90 og í mars lék hún undir hjá Hauki fyrri söngvara hennar í sönglagakeppninni Landslaginu í laginu Óþörf orð, þá var auk Kjartans, Þórðar og Hafþórs, gítarleikarinn Sigurgeir Sigmundsson kominn í sveitina.
Sprakk var meira áberandi um sumarið 1990 og þá var söngvarinn Jóhannes Eiðsson í henni en síðan heyrðist ekkert frá sveitinni um veturinn 1990-91 en þeir Kjartan, Þórður og Hafþór voru viðloðandi Hunangstungl Geira Sæm um haustið.
Sprakk birtist svo enn einn ganginn um sumarið 1991 og lék þá á einhverjum dansleikjum en þá á undan höfðu þeir félagar (fyrir utan söngvara) verið að vinna með Axeli Einarssyni að tónlist í nafni hinnar goðsagnakenndu Icecross, eitthvað af því efni kom svo út á safnplötunni Lagasafnið 2 árið 1992.
Karl Örvarsson var aftur orðinn söngvari Sprakk um sumarið 1991 og um haustið lék sveitin með honum í fyrrnefndri Landslagskeppni í laginu Dansaðu við mig en kallaðist þar Eldfuglinn og innihélt einnig Grétar Örvarsson bróður Karls. Sú sveit starfaði áfram til að fylgja fyrirhugaðri sólóplötu Karls eftir um haustið en Sprakk-nafnið var lagt niður í kjölfarið. Tónlist með sveitinni er þannig að finna á nokkrum plötum en þó hvergi í nafni Sprakk.