
Ása Dýradóttir
Afmælisbörn dagsins eru fimm á þessum Degi íslenskrar tungu:
(Vilborg) Ása Dýradóttir bassaleikari hljómsveitarinnar Mammút er þrjátíu og fjögurra ára gömul á þessum degi. Eins og margir muna sigraði Mammút Músíktilraunir Tónabæjar og Hins hússins vorið 2004 og hefur síðan gefið út fimm breiðskífur.
Næsta afmælisbarn, Jónas Hallgrímsson (1807-45) er eitt af þjóðskáldunum, allir þekkja og hafa sungið lög við ljóð og ljóðaþýðingar hans s.s. Álfareiðin (Stóð ég úti í tunglsljósi), Vísur Íslendinga (Hvað er svo glatt) og Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið). Það er engin tilviljun að dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á afmælisdegi Jónasar frá árinu 1996.
Oddgeir Kristjánsson tónlistarfrömuður og tónskáld úr Vestmannaeyjum (1911-1966) er hvað þekktastur fyrir Eyjalögin sín en hann var einnig tónlistarmaður, tónlistarkennari og kórstjórnandi svo dæmi séu tekin. Meðal laga sem Oddgeir samdi eru Ég veit þú kemur, Ship-o-hoj og Bjartar vonir vakna sem flestir þekkja, Oddgeir stofnaði einnig og stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja.
Jóhann Konráðsson (Jói Konn) söngvari (1917-82) hefði einnig átt afmæli, hann söng í Smárakvartettnum, karlakórnum Geysi og víðar, og er söng hans að finna á fjölmörgum plötum sem komið hafa út. Af Jóhanni eru komnir miklir söngvarar.
Og að síðustu er hér nefndur Vestur-Íslendingurinn Steingrímur Kristján Jónasson Hall (1877-1969), hann var mikill tónlistarmógúll á slóðum Íslendinga ytra, var tónskáld, kenndi söng og píanóleik, var organisti við fyrstu lúthersku kirkju Íslendinga og stjórnaði ennfremur lúðrasveit. Hann var að öllum líkindum fyrstur Íslendinga til að fá háskólagráðu í tónlistarfræðum og varð síðan prófessor, hann gaf svo út sönglagahefti með eigin verkum.
Vissir þú að Glatkistan fagnar átta ára afmæli um þetta leyti?